Þeir voru í stuði og spiluðu vel

Tryggvi Snær Hlinason.
Tryggvi Snær Hlinason. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Tryggvi Snær Hlinason er 214 cm og verður 19 ára eftir átta daga. Hann átti góðan leik fyrir Þór í kvöld þegar lið hans fékk Skallagrím í heimsókn i 3. umferð Dominos-deildar karla. Ekki dugði það til að Þór næði sínum fyrsta sigri því Skallagrímur vann leikinn 81:90.

Það var nú enginn bölmóður í Tryggva og hvernig hann talaði benti ekki til þess að hann væri eingöngu 18 ára. Gefum Tryggva orðið.

„Við vorum mikið að elta þá og sýndum það nokkrum sinnum í leiknum að það var alveg möguleiki að vinna þennan leik. Þeir hins vegar voru að spila vel og jafnt allan leikinn og fóru aldrei á taugum þótt við værum að ná þeim og taka forustuna. Við hins vegar náðum ekki að halda forskotinu og misstum þetta svo frá okkur í lokin með því að hitta illa. Þetta datt bara þeirra megin og menn áttu ekki nægan kraft til að klára dæmið.“

Tryggvi var lykilmaður þegar Þór komst loks yfir í leiknum í 3. leikhlutanum og svo átti hann tvær troðslur í lokaleikhlutanum sem kveiktu í áhorfendum en höfðu ekki sömu áhrif á liðið.

Ætlum að ná í fyrstu stigin í Grindavík

„Við fengum strax á okkur tvær körfur svo áhrifin urðu ekki eins og vonast var eftir. Skallagrímur brást bara vel við og svaraði fyrir sig. Þeir voru bara í stuði og spiluðu vel. Þetta var líklega okkar sísti leikur en þetta er bara eins og í lífinu. Stundum er góður dagur og stundum er vondur dagur. Við spiluðum líklega ekki nógu vel sem lið og því fór þetta svona í kvöld.“

En hvernig er að vera svona stór inni í teig andstæðinganna. Er ekki lamið hressilega á manni?

„Maður getur svo sem ekkert kvartað þegar maður er svona stór. Þetta vinnur kannski eitthvað á móti manni en ég er bara að hugsa um að bæta minn leik og er ekkert að röfla. Við náttúrulega erum allir að hugsa um að bæta leik okkar, erum nýliðar og erum alltaf að átta okkur betur á hlutunum. Við erum bara að vinna í því að koma liðinu betur saman, á þann stað þar sem við viljum vera. Og nú er það bara næsti leikur. Við erum á leið til Grindavíkur og þar ætlum við að ná í fyrstu stigin“ sagði Bárðdælingurinn ljúfi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert