Þór vann spennuleik á Ásvöllum

Emil Barja með boltann í leiknum gegn Þór í kvöld.
Emil Barja með boltann í leiknum gegn Þór í kvöld. mbl.is/Golli

Þór frá Þorlákshöfn vann sinn annan sigur í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld er liðið vann Hauka á Ásvöllum með 82 stigum gegn 77, í þriðju umferð.

Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi en munurinn varð aldrei meiri en fimm stig í fyrri hálfleiknum. Þór byrjaði ögn betur og komst í 10:5 forystu. Staðan var samt sem áður með 25:20, Haukum í vil, eftir 1. leikhluta. Þórsarar gátu helst þakkað Robin Carberry fyrri að munurinn var ekki meiri en hann fór á kostum og þá sérstaklega á fyrstu mínútum leiksins.

Spennan hélt áfram í 2. leikhluta. Haukar voru yfirleitt örfáum stigum yfir, en gestirnir hleyptu þeim aldrei langt frá sér. Þór komst yfir um tíma í stöðunni 34:35 en staðan í hálfleik var 38:37, fyrir Hauka og var ljóst að seinni hálfleikurinn yrði æsispennandi enda tvö mjög jöfn lið að mætast.

Þór byrjaði 3. leikhluta betur og komust mest fimm stigum yfir í stöðunni 56:51. Þá duttu skyttur Hauka í gang, sögðu hingað og ekki lengra og voru heimamenn úr Hafnarfirðinum með 64:62 forskot fyrir lokaleikhlutann.

Í 4. leikhluta byrjaði Þór aftur betur og komst sjö stigum yfir í stöðunni 71:78 en það var stærsta forskot leiksins, fram að því. Lokasekúndurnar voru æsispennandi Þórsarar voru 80:77 yfir þegar Haukar fengu eina sókn til að jafna leikinn. Finnur Atli fór hins vegar í mjög erfiðan þrist sem geigaði og fara Þórsarar því með tvö stig úr Hafnarfirðinum í stórskemmtilegum leik.

Tobin Carberry var stigahæstur hjá Þór með 27 stig og hann tók 9 fráköst. Aaron Brown skoraði mest Hauka eða 18 stig og Kristján Leifur Sverrisson skoraði 15 auk þess að taka 11 fráköst.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

-----------------------------------------------

Haukar - Þór Þ., 77:82
(25:20 - 38:37 - 64:62 - 77:82)

40. Leik lokið! Þórsarar náðu ekki að nýta sér sóknina þar sem Halldór Garðar klikkaði á galopnum þrist. Haukar fengu því tækifæri til að jafna en Finnur Atli fór í mjög erfitt skot sem geigaði og fara Þórsarar því með stigin tvö heim til Þorlákshafnar. Lokatölur 82:77 í stórskemmtilegum og spennandi leik. 

40. Það eru 45 sekúndur eftir og Þór er með 80:77 forystu og með boltann. Þeir taka leikhlé og ræða hvernig þeir ætla að sigla þessu heim. Gríðarleg spenna. 

37. Þór var 80:76 yfir þegar þeir fengu dæmda á sig tæknivillu. Haukar fengu alls þrjú vítaskot og gátu minnkað muninn í eitt stig. Þeir skoruðu hins vegar aðeins úr einu þeirra og Þórsarar fengu boltann. Þetta getur verið dýrt í svona jöfnum leik.

35. Fimm mínútur eftir og Þór er komið í sjö stiga forystu, sem er stærsti munurinn hingað til í leiknum. Carberry er kominn með 27 stig. 78:71.

32. Flott byrjun á lokaleikhlutanum hjá Þór og eru þeir komnir í 73:69 forystu. Ívari Ásgrímssyni, þjálfara Hauka, líst ekki á blikuna og tekur leikhlé. 

30. Leikhluta 3 lokið. Þvílík spenna. Haukar eru 64:62 yfir fyrir síðasta leikhlutann en Þór komst mest fimm stigum yfir 3. leikhlutanum. Haukar voru hins vegar sterkari á lokakafla hans og hafa þeir því nauma forystu fyrir síðustu tíu mínúturnar. 

25. Fyrsti leikhluti er hálfnaður og eru gestirnir komnir yfir. Staðan er 53:49 en Þórsarar hafa skellt niður tveim þristum í röð. Emil Karel byrjaði á að skjóta langt fyrir utan áður en Carberry skoraði úr erfiðu færi. 

20. Hálfleikur. Haukar eru 38:37 yfir í hálfleik. Virkilega jafn, spennandi og jafnframt skemmtilegur fyrri hálfleikur og er engin leið að sjá hvort liðið er sigurstranglegra. Svona viljum við hafa þetta. Aaron Brown, Emil Barja og Kristján Leifur Sverrisson eru stigahæstir hjá Haukum með átta stig hver en Tobin Carberry er stigahæstur Þórsara með 16 stig. 

17. Styttist í hálfleikinn og er staðan jöfn, 32:32 í spennandi leik. Carberry er kominn með 16 stig eða helmingi meira en næstu menn.

13. Þórsarar fara nokkuð vel af stað í 2. leikhluta og eru búnir að minnka muninn í eitt stig en staðan er nú 27:26, Haukum í vil. Davíð Arnar Ágústsson, er að spila sérstaklega vel í upphafi leikhlutans. 

10. Leikhluta 1 lokið. Haukar voru sterkari í seinni hluta 1. leikhluta. Staðan er 25:20 en þriggja stiga skotin þeirra eru byrjuð að detta, ásamt því að stigaskor þeirra er að dreifast vel. Carberry er búinn að skora rúmlega helming stiga gestanna en hann er með 12 stig. Það þarf fleiri með honum. 

6. Haukar hafa svarað með sjö stigum í röð og eru þeir nú yfir, 11:10. Liðin virka mjög jöfn. 

5. Gestirnir úr Þorlákshöfn fara ögn betur af stað og er staðan 10:5 eftir fjórar mínútur. Tobin Carberry er kominn með öll stig Þórsara. 

1. Leikur hafinn!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert