Durant breytir stöðunni

Kevin Durant klæðist nú treyju Golden State Warriors.
Kevin Durant klæðist nú treyju Golden State Warriors. AFP

NBA-keppnistímabilið hófst í nótt og ef marka má spá fréttafólks og framkvæmdastjóra liðanna þykir næsta víst að meistarar Cleveland Cavaliers og Golden State Warriors muni mætast í lokaúrslitunum næsta sumar, þriðja árið í röð. Það hefur ekki áður gerst í sögu deildarinnar að tvö sömu liðin afreki það sameiginlega.

Ástæðan fyrir þessari spá kunnugra er einfaldlega sú að Cleveland hefur enga alvarlega samkeppni í Austurdeildinni og Golden State krækti í Kevin Durant frá Oklahoma City Thunder í sumar – til að styrkja liðið eftir tapið gegn Cleveland í úrslitunum á síðasta keppnistímabili. Þetta var mikilvægasta liðsskiptingin í deildinni síðan LeBron James yfirgaf Clevland til að fara til Miami fyrir sex árum.

Koma Durant til Warriors breytti því styrkleikastöðunni í Vesturdeildinni nokkuð. Yfir höfuð hefur lítið breyst hvað varðar sterkustu liðin fyrir utan liðsskiptingu kappans. Golden State var þegar sterkt fyrir. Liðið er nú komið enn framar næstu liðum.

Erfitt að sjá annað lið vinna Vesturdeildina

Steve Kerr, þjálfari Golden State, mun eiga við að glíma svipað vandamál og þjálfari Cleveland varðandi fjölda leikja liðsins undanfarin tvö ár. Hann mun einnig þurfa að hvíla ákveðna lykilleikmenn í deildakeppninni. Ólíkt Cleveland var nokkuð um leikmannabreytingar hjá Golden State og það mun sjálfsagt taka liðshópinn einhverjar vikur í deildakeppninni að ná saman.

Kerr er hinsvegar góður þjálfari og mun eflaust finna rétta leikaðferð á spili liðsins.

Félagaskipti Kevin Durant til Golden State í sumar breytti ekki aðeins leikmannahópnum, heldur og styrkleikastöðu liðanna vestanmegin í heild sinni. Forráðamenn Warriors urðu að láta nokkra lykilmenn fara til að tryggja nægilegt rúm undir launaþaki liðsins til að borga Durant. Það mun sjálfsagt borga sig fyrir liðið, því Durant er einn af þremur bestu leikmönnum deildarinnar ár eftir ár og hann á eflaust eftir að falla vel inn í leik Warriors.

„Við Kevin hugsum mjög líkt um marga hluti og við höfum spilað vel saman í landsliðinu,“ sagði bakvörðurinn Stephen Curry nýlega í viðtali. „Þetta hefur verið auðveld breyting að blanda honum inn í leikmannahópinn. Ég hef séð það í upphitunarleikjum okkar.

Ítarlega grein Gunnars í heild sinni um NBA-deildina er að finna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Stephen Curry og Manu Ginobili í leik Golden State og …
Stephen Curry og Manu Ginobili í leik Golden State og San Antonio í nótt. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert