Fyrsti sigur Þórsara kom í Grindavík

Darrel Lewis reynir skot fyrir Þór. Ólafur Ólafsson til varnar.
Darrel Lewis reynir skot fyrir Þór. Ólafur Ólafsson til varnar. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Þórsarar frá Akureyri gerðu góða ferð til Grindavíkur í kvöld þegar höluðu inn sínum fyrsta sigri í Dominos-deild karla í körfuknattleik, 97:85. Grindvíkingar höfðu fram að þessu verið taplausir á heimavelli.

Grindvíkingar voru yfir í hálfleik, 48:44, en það var fyrst og fremst fjórði leikhluti sem varð Grindvíkingum að falli. Þórsarar léku þá við hvurn sinn fingur og innbyrtu öruggan og jafnfram verðskuldaðan sigur, sinn fyrsta í deildinni í vetur.

Danero Thomas var stigahæstur hjá Þór með 25 stig en hjá Grindavík skoraði Ólafur Ólafsson 19 stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

40. Leik lokið, lokatölur 85:97. Benedikt þjálfari Þórsara tók á það ráð að setja Riley Ross og Darrel Lewis á bekkinn og við það gjörbreyttist leikur Þórsara til hins betra. Þeir komust mest í 20 stiga forystu í leikhlutanum en slökuðu á klónni þegar líða tók á leikhlutann.  Grindvíkingar hafa verið í baráttu leikjum hér heimafyrir í fyrstu leikjum sínum og tóku ágætis áhlaup á lokasprettinum til að stela sigrinum en Þórsarar héngu á sínu og lönduðu sínum fyrsta sigri í vetur. 85:97 varð loka niðurstaða kvöldsins.

30. Þórsarar hafa með seiglu náð yfirhöndinni aftur í leiknum og nú var það Lewis (Darrel) hjá Þór Akureyri sem lokaði leikhlutanum með ótrúlegri körfu og gestirnir leiða með 4 stigum fyrir loka leikhlutann. Staðan er 65:69 og allt stefnir í enn einn naglbítinn hér í Grindavík en báðir leikirnir hingað til hafa unnist á loka sekúndum eða í framlengingu.

20. Hálfleikur, staðan er 48:44. Grindvíkingar eru líkt og í öðrum leikjum sínum hér heimafyrir í Röstinni seinir í gang. Eftir að Þór hafði komið sér í 12 stiga forystu leyfði Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórs að hvíla Tryggva Snæ Hlinason í nokkrar mínútur. Varnarleikur gestana gersamlega hrundi við það og heimamenn gengu á lagið. Það dugði ekki heimamönnum að jafna því þeir leiða nú í leiknum með 4 stigum eftir að Lewis Clinch setti niður þrist á loka sekúndu fyrri hálfleiks.

10. Fyrst leikhluta lokið hér í Grindavík og gestirnir frá Akureyri sem eru án stiga í deildinni hafa verið með tögl og hagldir í leiknum þó forysta þeirra hafi aldrei verið afgerandi.  Grindvíkingar þurfa að herða varnarleik sinn því Þórsarar virðast skora án mikillar fyrirhafnar. Staðan er 21:25 gestunum í vil eftir fyrstu 10 mínúturnar.

1. Leikurinn er hafinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert