Köllum þetta ryð á góðri íslensku

Pavel Ermolinskij.
Pavel Ermolinskij. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er gott að geta komið inn í svona leik þar sem við vinnum sannfærandi. Þá get ég gert mín mistök án þess að það hafi áhrif á niðurstöðu leiksins. Þannig að það er bara frábært,“ sagði Pavel Ermolinskij, leikmaður KR, í samtali við mbl.is eftir stórsigur KR gegn Haukum í Dominos-deild karla í körfuknattleik í kvöld, 94:61.

Leikurinn var sá fyrsti sem Pavel tekur þátt í á nýhöfnu keppnistímabili en hann hefur verið að glíma við meiðsli í allt sumar og fram á haust. Hann skoraði sex stig, gaf sex stoðsendingar og tók sjö fráköst á 18 mínútum í kvöld.

Pavel kveðst vera í ágætu standi, þó að auðvitað sé leikformið ekki það besta. „Þetta var gott en það var einnig margt erfitt eins og að bregðast við varnarlega. Þetta er það sem við köllum ryð á góðri íslensku. Ég er ekki alveg að hugsa eins og ég á að vera að hugsa,“ sagði Pavel en hann sagðist ekki hafa fundið neitt fyrir meiðslunum:

„Alls ekki. Mig vantar smáleikform en er virkilega sáttur með þetta eftir á.“

Vorum ekki lengur stóra, vonda KR

Leikstjórnandinn er ánægður með spilamennsku KR hingað til en liðið er ósigrað í efsta sæti deildarinnar. „Strákarnir eru búnir að vera frábærir og við erum búnir að spila yfirburðabolta. Núna þegar við gömlu leikmennirnir bætumst við þá verðum við að passa að stíga ekki á neinar tær. Við verðum að hafa jafnvægi á milli þess að við erum að trekkja okkur í gang og tökum þátt í því sem þeir eru búnir að gera svo vel.“

Hann telur jafnvel að umræða í byrjun móts hafi hjálpað til við að koma liðinu í gang. Hann og Jón Arnór Stefánsson voru frá vegna meiðsla og Jón er enn meiddur. „Umtalið var aðeins öðruvísi í byrjun tímabils, við Jón ekki með og við vorum ekki lengur stóra, vonda KR. Ég held að það hafi hjálpað okkur því við vorum á tánum og vonandi getum við haldið því áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert