Stjarnan enn með fullt hús stiga

Justin Shouse með boltann í leiknum í kvöld.
Justin Shouse með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Stjarnan tók á móti Keflavík í fjórðu umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik, í Ásgarði í kvöld. Stígandi hefur verið í leik Garðbæinga í upphafi móts og á því varð engin breyting í kvöld og fóru þeir með sigur af hólmi, 99:82. Stjörnumenn eru enn með fullt hús stiga.

Heimamenn voru með yfirhöndina meira eða minna allan fyrri hálfleikinn og leiddu að honum loknum, 46:37. Munaði þar miklu um stórleik Tómasar Heiðars Tómassonar, sem fór á kostum í fyrsta leikhluta og skoraði fjórar þriggja stiga körfur. Gestirnir gerðu nokkur góð áhlaup í fyrri hálfleiknum og komust m.a. yfir 31:32, í fyrsta og eina skiptið í leiknum.

Undir lok fyrri hálfleiks urðu gestirnir fyrir miklu áfalli. Keflvíkingurinn Reggie Dupree og Stjörnumaðurinn Justin Shouse voru að deila sín á milli, sem endaði með því að Dupree tók hárbandið af höfði Shouse og kastaði því upp á áhorfendapallana, við litla hrifningu heimamanna. Fyrir þennan gjörning var Dupree umsvifalaust vikið úr húsi og setti þetta atvik gríðarlegt strik í reikning gestanna, því leikmaðurinn var á þessum tímapunkti stigahæstur Keflvíkinga með ellefu stig. Auk þess var munurinn á liðunum aðeins tvö stig, Stjörnumönnum í vil, en í kjölfar þessa, tóku heimamenn öll völd á vellinum og létu þau aldrei af hendi. Reyndist þetta því vera ákveðinn vendipunktur í leiknum.

Stjörnumenn héldu yfirhöndinni í þriðja leikhluta, þar sem Devon Andre Austin fór hamförum. Austin hefur haft frekar hægt um sig í byrjun móts, en mikil stígandi hefur verið í hans leik að undanförnu, líkt og hjá Stjörnuliðinu öllu. Þá hélt Tómas Heiðar uppteknum hætti, auk þess sem Justin Shouse og Hlynur Bæringsson spiluðu vel. Fjarvera Reggie Dupree hafði mikil áhrif á Keflvíkinga sem voru fremur ráðleysislegir í sóknarleik sínum og því ljóst að þessi glórulausa ákvörðun Dupree undir loks fyrri hálfleiks reyndist Keflvíkingum dýrkeypt þegar upp var staðið.

Það var einungis formsatriði að klára fjórða leikhlutann, því slíkir voru yfirburðir heimamanna. Varamenn liðanna fengu að spreyta sig, án þess að það hefði áhrif á lokaniðurstöðuna. Stjörnumenn uppskáru að lokum öruggan sigur, 99:82. Eftir þessa fjórðu umferð, er Stjarnan með átta stig, eða fullt hús stiga, líkt og KR-ingar sem lögðu Hauka að velli, í kvöld. Þessi tvö lið sitja því í tveimur efstu sætum deildarinnar. Keflvíkingar eru hins vegar áfram með fjögur stig og eru um miðja deild. 

40. Leik lokið, lokatölur 99:82. Leiknum er lokið hér í Ásgarði, með sigri Stjörnunnar, 99:82. Stjörnumenn náðu yfirhöndinni snemma í leiknum og leiddu að fyrri hálfleik loknum, 46-37. Í síðari hálfleik gáfu heimamenn í og uppskáru að lokum öruggan sigur.  

Stigahæstir heimamanna voru Tómas Heiðar Tómasson (25 stig), Devon Andre Austin (20 stig), Justin Shouse (20 stig) og Hlynur Bæringsson (19 stig). Hjá Keflavík var Amin Khalil Stevens (24 stig) stigahæstur og á eftir honum komu Guðmundur Jónsson (13 stig) og Reggie Dupree (11 stig).

30. Staðan er 75:56. Stjarnan hefur aukið forskot sitt jafnt og þétt í síðari hálfleik og leiða að loknum þriðja leikhluta, 75:56. Þeir stefna hraðbyri á fjórða sigur sinn í deildinni. Stigahæstir hjá Stjörnunni eru Tómas Heiðar Tómasson (22 stig), Devon Andre Austin (20 stig) og Justin Shouse (15 stig). Hjá Keflvíkingum er Amin Khalil Stevens stigahæstur (18 stig) ásamt Reggie Dupree (11 stig), en hann hefur lokið leik, eftir að hafa verið vikið úr húsi undir lok fyrri hálfleiks.

20. Hálfleikur. Staðan er 46:37.

Jöfnum og spennandi fyrri hálfleik er lokið í Ásgarði, þar sem heimamenn leiða, 46:37. Heimamenn hafa verið með yfirhöndina meira eða minna allan hálfleikinn, þó svo að gestirnir hafi gert áhlaup við og við. 

Stigahæstir hjá heimamönnum eru Tómas Heiðar Tómasson (14 stig), Justin Shouse (11 stig) og Hlynur Bæringsson (9 stig). Hjá Keflvíkingum eru Reggie Dupree (11 stig) og Amin Khalil Stevens (10 stig) stigahæstir.

Undir lok hálfleiksins urðu Keflvíkingar fyrir miklu áfalli, þegar þeirra besta manni, Reggie Dupree var vikið úr húsi fyrir að kasta hárbandi Justin Shouse, upp á áhorfendapallana. Þetta atvik gæti reynst Keflvíkingum dýrkeypt þegar upp verður staðið.  

10. Staðan er 24:18. Fyrsta leikhluta lokið. Hér í Garðabæ hafa heimamenn verið með yfirhöndina gegn gestunum úr Keflavík. Eftir fyrsta leikhluta er staðan 24:18, Stjörnunni í vil. Tómas Heiðar Tómasson er stigahæstur heimanna með 12 stig, en hann hefur nýtt öll fjögur þriggja stiga skot sín. Hlynur Bæringsson kemur þar á eftir með 6 stig. Hjá Keflvíkingum er Reggie Dupree stigahæstur með 9 stig.

1. Leikurinn er hafinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert