Stórsigur KR á Ásvöllum

Kristján Leifur Sverrisson keyrir að körfu KR í kvöld en …
Kristján Leifur Sverrisson keyrir að körfu KR í kvöld en Cedrick Bowen er til varnar. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

KR sigraði Hauka, 94:61, í fjórðu umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik í Hafnarfirði í kvöld. Íslandsmeistararnir úr Vesturbænum eru með fullt hús stiga eftir fjóra leiki en Haukar hafa unnið tvo og tapað tveimur.

Heimamenn hófu leikinn ágætlega en gestirnir úr Vesturbænum voru fljótir að snúa leiknum sér í hag. Staðan að loknum fyrsta leikhluta 30:22 fyrir KR en Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, endaði leikhlutann á flautuþristi.

Annar leikhluti var eign KR frá upphafi til enda. Vörnin var gríðarlega sterk og í þau fáu skipti sem Haukar fundu leið framhjá vörninni var eins og karfan væri lokuð. Gestirnir unnu leikhlutann 26:9 og staðan að loknum fyrri hálfleik því 56:31 fyrir KR.

Haukar hefðu þurft að koma til leiks af miklum krafti í seinni hálfleik en það gerðu þeir hins vegar ekki. Þeir skoruðu fyrstu körfuna í leikhlutanum eftir rúmlega fjögurra mínútna leik og gekk líkt og í öðrum leikhluta afar illa að koma boltanum rétta leið. KR lék heldur engan glimrandi sóknarleik í leikhlutanum og staðan 74:38 fyrir KR fyrir lokaleikhlutann.

Úrslitin voru ráðin fyrir lokaleikhlutann og minni spámenn fengu talsvert að spreyta sig í honum. Það fór svo að lokum að KR vann Hauka örugglega, 94:61

Sigurður Þorvaldsson var stigahæstur KR-inga með 18 stig en Finnur Atli Magnússon skoraði 12 stig fyrir Hauka. KR-ingar léku vel í kvöld en lykilmenn eins og Brynjar Þór, Darri Hilmarsson og Sigurður Þorvaldsson stóðu allir fyrir sínu. Cedrick Bowen var ágætur og Pavel Ermolinskij á bara eftir að verða betri eftir meiðslin.

Allir leikmenn Hauka geta betur en það var þó vitað að það yrði við ramman reip að draga; útlendingalausir gegn KR. 

40. (61:94) Leik lokið með öruggum sigri KR.

37. (48:85) Flestir sterkustu leikmenn liðanna eru horfnir af velli og hinir svokölluðu minni spámenn reyna að sanna sig fyrir þjálfurunum. Úrslit leiksins eru löngu ráðin.

33. (46:81) Liðin skiptast á körfum í upphafi fjórða leikhluta en Haukar eru nú þegar komnir með fleiri stig í fjórða leikhluta en öllum þriðja. 

30. (38:74) Þriðja leikhluta er lokið en það var lítið skorað í leikhlutanum. KR vann hann 18:7. Haukar hafa þrí skorað samtals 16 stig í öðrum og þriðja leikhluta, sem er auðvitað ekki boðlegt. Sigurður Þorvaldsson er enn stigahæstur KR-inga, með 16 stig en Finnur Atli Magnússon hefur skorað 12 stig fyrir Hauka.

27. (35:65) Enn er lítið skorað í þriðja leikhluta en munurinn eykst alltaf örlítið. Veit ekki hvort það er fullsnemmt að segja að úrslitin séu ráðin en mér þykir ólíklegt að Haukar vinni úr þessu.

23. (31:60) Lítið skorað í upphafi seinni hálfleik. Haukar hafa reyndar ekki skorað lítið, þeir hafa ekkert skorað. 

21. (31:56) Seinni hálfleikur er hafinn.

20. (31:56) Fyrri hálfleik er lokið og KR-ingar hafa 25 stiga forystu. Eins og sést á tölum þá fóru gestirnir að spila frábæra vörn í öðrum leikhluta en þeir unnu hann 26:9. Sigurður Þorvaldsson er stigahæstur í liði KR með 14 stig og Brynjar Þór Björnsson er með 10. Haukur Óskarsson er með 9 stig hjá Haukum og Finnur Atli Magnússon hefur skorað 7 stig.

17. (29:48) Munurinn eykst, jafnt og þétt. Haukar virðast varla geta hitt úr auðveldustu skotum á meðan gestirnir skora nánast að vild.

13. (26:38) KR-ingar byrja annan leikhlutann af krafti en liðunum gengur báðum frekar illa að koma boltanum ofan í körfuna. Munurinn virðist vera að aukast.

10. (22:30) Fyrsta leikhluta er lokið og KR-ingar hafa sigið fram úr undir lok leikhlutans. Brynjar Þór endaði leikhlutann á flautuþrist, spjaldið ofan í, og gestirnir hafa átta stiga forystu eftir góða byrjun Hauka.

7. (15:15) Pavel Ermolinskij kemur inn á í fyrsta skipti í vetur. Darri Hilmarsson er farinn af velli með tvær villur en það er smá áhyggjuefni fyrir KR-inga.

6. (13:12) Meistararnir hafa náð áttum eftir erfiða byrjun. Sigurður Þorvaldsson er sjóðandi heitur en hann er kominn með átta af tólf stigum Vesturbæinga. Raunar skoraði hann átta fyrstu stig þeirra.

3. (8:3) Heimamenn hafa byrjað leikinn af miklum krafti og það er eins og krafturinn komi gestunum eitthvað á óvart.

1. Leikurinn er hafinn!

0. Landsliðsmaðurinn Pavel Ermolinskij er í fyrsta skipti í leikmannahópi KR í vetur nú í kvöld. Hann hefur verið að glíma við meiðsli og það þarf ekkert að fjölyrða um það hversu mikið hann styrkir ógnarsterkt lið KR. 

Leikmenn Hauka í kvöld: Kristján Leifur Sverrisson, Gunnar Birgir Sandholt, Björn Jónsson, Snólfur Björnsson, Hjálmar Stefánsson, Haukur Óskarsson, Finnur Atli Magnússon, Steinar Arason, Óskar Már Óskarsson, Breki Gylfason, Emil Barja og Ívar Barja.

Leikmenn KR í kvöld: Brynjar Þór Björnsson, Arnór Hermannsson, Benedikt Lárusson, Þórir Þorbjarnarson, Snorri Hrafnkelsson, Karvel Schram, Darri Hilmarsson, Vilhjálmur Kári Jensson, Pavel Ermolinskij, Sigvaldi Eggertsson, Sigurður Þorvaldsson og Cedrick Bowen.

Hafnfirðingar riftu samningi við Aaron Brown en fengu í hans stað Sherrod Wright. Sá síðarnefndi lék á síðustu leiktíð með Snæfelli og er því öllum hnútum kunnugur hér á landi. Wright leikur ekki með Hafnfirðingum í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert