„Vendipunktur þegar Dupree var rekinn úr húsi”

Hjörtur Harðarson, þjálfari Keflavíkur.
Hjörtur Harðarson, þjálfari Keflavíkur. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Hjörtur Harðarson, þjálfari Keflavíkur í Dominos-deild karla í körfuknattleik, var vonsvikinn eftir 99:82 tap sinna manna fyrir Stjörnunni, í Ásgarði í kvöld.

Sjá frétt mbl.is: Stjarnan enn með fullt hús stiga

Eftir ágætis spilamennsku Keflvíkinga í fyrri hálfleik, fór allt í baklás í kjölfar þess að Reggie Dupree var rekinn úr húsi, undir loks hálfleiksins. Stjörnumenn völtuðu yfir bitlausa Keflvíkinga og við það var Hjörtur allt annað en sáttur.

„Fyrri hálfleikur var ágætur hjá okkur, en mér fannst samt vanta ákveðinn kraft í okkur. Við vorum frekar linir og máttlausir. Við hefðum þurft að spila kraftmeiri vörn og þá létum við þá ýta okkur allt of langt út í sókninni. Við vorum einfaldlega ekki nógu aggressívir. Það er náttúrlega ekki vænlegt til árangurs,” sagði Hjörtur í samtali við mbl.is, eftir leik.

Keflvíkingurinn Reggie Dupree var rekinn úr húsi, fyrir að hafa kastað höfuðbandi Stjörnumannsins Justin Shouse upp í áhorfendastúkuna. Á þessum tímapunkti var leikurinn í járnum og Dupree búinn að spila mjög vel. Við atvikið urðu ákveðin kaflaskil í leiknum.

„Atvikið undir lok fyrri hálfleiks sneri leiknum alveg við og þetta var bara algjör vendipunktur í leiknum. Ég sá þetta ekki almennilega til þess að dæma um, hvort þetta var réttur dómur eða ekki. Hann var búinn að spila mjög vel fram að því og eftir að hann fór út af, þá var þetta mjög erfitt hjá okkur.”

„Ég vil meina að það sé stígandi í okkar leik, þannig að við erum á réttri leið. Við erum búnir að spila við lið sem spáð var fyrir ofan okkur og uppskeran er fjögur stig. Þannig að vonandi eru fleiri stig handan við hornið, en þá þurfum við fyrst og fremst að spila betur en við gerðum hér í kvöld,” sagði Hjörtur að lokum í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert