Westbrook jafnaði árangur Jordan

Russell Westbrook náði í sína sjöundu þreföldu tvennu í nótt.
Russell Westbrook náði í sína sjöundu þreföldu tvennu í nótt. AFP

Russell Westbrook, leikmaður Oklahoma City Thunder, varð fyrsti leikmaðurinn til þess að ná þrefaldri tvennu í sjö leikjum í röð síðan Michael Jordan gerði það árið 1989 þegar Oklahoma City Thunder laut í lægra haldi fyrir Houston Rockets í NBA-deildinni í körfubolta karla í nótt. Þetta er 12. þrefalda tvenna Westbrook á yfirstandandi leiktíð.

Metið yfir flestar þrefaldar tvennur í röð í NBA-deildinni á Wilt Chamberlain, en hann náði níu þreföldum tvennum í röð fyrir Philadelpia 76ers í mars árið 1968.

Carmelo Anthony skoraði 33 stig fyrir New York Knicks þegar liðið hafði betur gegn Sacramento Kings, en tvö stig hans af vítalínunni á lokasekúndum leiksins innsigluðu sigur liðsins. Þá skoraði Kyle Lowry 34 stig fyrir Toronto Raptors og átti stóran þátt í sigri liðsins gegn Boston Celtics.

Dennis Schroder bætti síðan met sitt hvað varðar stigaskor í NBA-deildinni þegar hann skoraði 33 stig fyrir Atlanta Hawks, en liðið kom til  baka eftir að hafa lent 20 stigum undir gegn Miwauke Bucks og innbyrti fjögurra stiga sigur.

Úrslit næturinnar í NBA-deildinni urðu eftirfarandi:   

Charlotte Hornets - Orlando Magic, 109:88
Clevland Cavaliers - Miami Heat, 114:84
Boston Celtics - Toronto Raptors, 101:94
Milwaukee Bucks - Atlanta Hawks, 110:114
Oklahoma City Thunder - Houston Rockets, 99:102
Minnesota Timberwolves - Detroit Pistons, 90:117
Dallas Mavericks - Indiana Pacers, 111:103
Los Angeles Lakers - Phoenix Suns, 119:115
Sacramento Kings - New York Knicks, 100:103

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert