Stórsigur Skallagríms á Ásvöllum

Tavelyn Tillman með boltann í leiknum við Hauka í kvöld.
Tavelyn Tillman með boltann í leiknum við Hauka í kvöld. mbl.is/Stella Andrea

Haukar voru engin fyrirstaða fyrir Skallagrím þegar liðin áttust við í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld. Lokatölur urðu 74:38 fyrir gestina úr Borgarnesi.

Um var að ræða lokaleik 12. umferðar deildarinnar. Skallagrímur er í 2.-3. sæti með 16 stig og renndi sér upp að hlið Snæfells á nýjan leik. Haukar eru í 8. og neðsta sæti með 7 stig en með jafn mörg stig og Grindavík.

Styrkleikamunurinn á liðunum kom berlega í ljós í kvöld. Munurinn að loknum fyrsta leikhluta var átta sig en Borgnesingar náðu tuttugu stiga forskoti fyrir hlé. Í síðari hálfleik náði ungt lið Hauka aldrei að hleypa spennu í leikinn og Skallagrímur landaði sigrinum fremur áreynslu lítið.

Töluverður munur er á líkamlegum burðum leikmanna í þessum tveimur liðum og allar aðgerðir Hauka því verulega erfiðar. Kelia Shelton var stigahæst hjá Haukum með 12 stig en Tavelyn Tillman skoraði mest fyrir Skallagrím eða 24 stig.  

40. mín: Leiknum er lokið með stórsigri Skallagríms 74:38. 

33. mín: Staðan er 60:30 fyrir Skallagrím. Borgnesingar hitta nú vel úr langskotunum. Kristrún og Sólrún hafa bætt við þriggja stiga körfum. 

30. mín: Staðan er 54:28 fyrir Skallagrím fyrir síðasta leikhlutann. Jóhanna Björk og Kristrún settu sitt hvorn þristinn undir lok leikhlutans. 

25. mín: Staðan er 46:26 fyrir Skallagrím. Jafnræði með liðunum í upphafi seinni hálfleiks. Þrátt fyrir ágætan vilja eru Haukar ekki líklegir til að ná áhlaupi sem myndi hleypa verulegri spennu í leikinn. Ekki ennþá að minnsta kosti.  

22. mín: Staðan er 38:22 fyrir Skallagrím. Ágæt byrjun Hafnfirðinga í upphafi síðari hálfleiks. Shelton er skorað fjögur fyrstu stigin í síðari og er að taka sig á. 

20. mín: Staðan er 38:18 fyrir Skallagrím. Haukar byrjuðu leikinn ekki illa en eftir því sem leið á hálfleikinn komu líkamlegir burðir leikmanna liðanna í ljós. Flestar aðgerðir eru erfiðar fyrir Hauka, bæði í vörn og sókn. Shelton hefur skilað alltof litlu. Er reyndar með 8 fráköst en hefur aðeins hitt úr einu af átta skotum sínum. Til samanburðar er Tillman með 13 stig hjá Sköllunum og Sigrún Sjöfn er með 7 stig. 

15. mín: Staðan er 30:14 fyrir Skallagrím. Lið Borgnesinga hefur náð góðum tökum á leiknum. Þjálfarinn Manuel Angel Rodriguez Escudero á þó erfitt með að leyna vonbrigðum sínum þegar honum þykir leikmönnum sínum ekki takast nægilega vel upp. Stappar þá niður spariskónum sínum og er líflegur á hliðarlínunni. 

12. mín: Staðan er 23:14 fyrir Skallagrím. Skemmtilegt atvik þar sem hörkubarátta var um lausan bolta. Kelia Shelton virtist hafa náð boltanum en Fanney Lind gerði harða atlögu að henni. Reyndi að hrifsa boltann af Shelton sem þá reif boltann hressilega til sín og Fanney sveiflaðist til og lenti í gólfinu. Fanney stóð hratt á fætur og dómarinn Davíð Kr. Hreiðarsson taldi líklega að ófriðarbál væri að kvikna og hljóp á milli leikmannanna tveggja. Þá heyrðist í Fanney: „Ég ætlaði nú ekki í hana.“ 

10. mín: Staðan er 22:14 fyrir Skallagrím. Haukar hafa fengið fleiri opin skot en staðan gefur til kynna en þau nýttust illa. Þriggja stiga skot Tavelyn Tillman skilja liðin að en hún er komin með 10 stig fyrir Borgnesinga. 

5. mín: Staðan er 10:6 fyrir Skallagrím. Töluvert um mistök hjá báðum liðum í síðustu sóknum. Hafnfirðingar nokkuð ákafir í vörninni og virðast ætla að berjast fyrir stigunum. 

1. mín: Staðan er 5:4 fyrir Skallagrím. Skallarnir byrjuðu með látum því Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði þriggja stiga körfu eftir aðeins 6 sekúndur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert