Israel Martin á Króknum til 2020

Israel Martin.
Israel Martin. mbl.is/Árni Sæberg

Körfuknattleiksdeild Tindastóls á Sauðárkróki hefur framlengt samning spænska þjálfarans Israel Martin að hann haldi áfram þjálfun meistaraflokks karla til ársins 2020. Þá mun hann sinna stöðu yfirþjálfara félagsins.

Það er fréttavefurinn Feykir í Skagafirði sem greinir frá þessu og var þetta tilkynnt fyrir leik Tindastóls gegn ÍR sem fram fer á Króknum í kvöld. Tindastóll er í 3. sæti Dominos-deildarinnar sem stendur, tveimur stigum á eftir toppliðum KR og Stjörnunnar.

Martin tók við liði Tindastóls fyrir tímabilið 2014-2015 þegar liðið var nýliði í Dominos-deildinni. Hann stýrði liðinu alla leið í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn þar sem Stólarnir töpuðu fyrir KR. Hann var valinn þjálfari ársins þá um haustið.

Martin hætti þjálfun Tindastóls eftir tímabilið og tók við Bakken Bears í Danmörku. Hann stýrði liðinu til bikarmeistaratitils og var valinn þjálfari ársins í Danmörku síðastliðið vor. Hann sneri svo aftur á Krókinn í nóvember síðastliðnum og tók við Stólunum á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert