Við skildum allt eftir á vellinum

Danielle Victoria Rodriguez með boltann í leiknum í kvöld án …
Danielle Victoria Rodriguez með boltann í leiknum í kvöld án þess að Guðrún Ósk Ámundadóttir komi vörnum við. mbl.is/Golli

„Það er alltaf erfiðara að tapa svona jöfnum leikjum en mér fannst liðið skilja allt eftir á vellinum,“ sagði Danielle Victoria Rodriguez, leikmaður Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir tap fyrir Skallagrími 84:79 í Dominos-deild kvenna í Garðabæ í kvöld.

„Ég er ánægð með hversu hart við lögðum að okkur. Stundum detta skotin einfaldlega ekki, en þrátt fyrir það vorum við samt að berjast um hvert frákast og gefa allt í hlutina. Þrátt fyrir að hitta illa geturðu alltaf stjórnað hversu hart þú leggur að þér og ég er ánægð með það hjá okkur. Nú þurfum við bara að vona að við förum að hitta,“ sagði Danielle.

Hún skoraði 31 stig í leiknum og var stigahæst Stjörnunnar, en liðið náði oft yfirhöndinni í leiknum án þess að geta fylgt því eftir.

„Það er svekkjandi að tapa eftir að við börðumst vel allan leikinn og vorum svona nálægt þessu. Við vorum að koma okkur í færi og sýndum mikla baráttu í vörninni. Þegar við fórum að hitta illa komust þær inn í leikinn en við skildum allt eftir á vellinum og það er það eina sem hægt er að biðja um,“ sagði Danielle.

Stjarnan er í fjórða sæti deildarinnar, því síðasta sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni, með fjögurra stiga forskot á Val. Danielle segir markmiðið nú fyrst og fremst að halda fjórða sætinu.

„Já, úrslitakeppnin er okkar aðalmarkmið. Ef við vinnum þá leiki sem eftir eru er það öruggt og virkilega gott að hafa það í okkar höndum. Við þurfum að leggja þennan leik til hliðar og halda áfram, það eru lið sem eru rétt á eftir okkur en við verðum að halda einbeitingunni á okkur sjálfum en ekki neinum öðrum,“ sagði Danielle Victoria Rodriguez í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert