Sjötti heimasigur ÍR í röð

Quincy Hankins-Cole sækir að körfunni. Keith Lewis og Tryggvi Snær …
Quincy Hankins-Cole sækir að körfunni. Keith Lewis og Tryggvi Snær Hlinason fylgjast með. mbl.is/Golli

ÍR-ingar unnu sinn sjötta heimasigur í röð í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. Sigur þeirra gegn Þór Ak var ansi sannfærandi og munaði að lokum 22 stigum á liðunum, 100:78

Þórsarar byrjuðu leikinn ögn betur og komust þeir í 10:6 á meðan ÍR-ingar reyndu mikið af þriggja stiga körfum sem gengu lítið upp. Þegar 1. leikhluti var hálfnaður hafði Þór 15:13 forystu. Þá tóku heimamenn við sér og sýndu hvers vegna þeir eru eitt besta lið landsins á heimavelli. ÍR vann næstu mínútur 12:3 og tóku undirtökin sem þeir héldu út allan hálfleikinn.

Staðan í hálfleik var 43:33 en munurinn varð mestur 14 stig í fyrri hálfleik. George Beamon, bandarískur leikmaður Þórs var langt frá sínu besta og skoraði hann aðeins tvö stig í öllum hálfleiknum, en stigaskor beggja liða dreifðist vel. Matthías Orri Sigurðarson skoraði tólf stig fyrir ÍR í hálfleiknum og Þröstur Leó Jóhannsson var með átta fyrir Þór.

ÍR-ingar voru svo mun sterkari aðilinn í seinni hálfleik og var munurinn orðinn 22 stig fyrir síðasta leikhlutann. Leikmenn ÍR voru mikið grimmari í öllum fráköstum ásamt því að sóknarleikur þeirra gekk betur. Þeir fóru að hitta betur úr þriggja stiga skotum og úr varð ansi ójafn leikur. Fjórði leikhlutinn var formsatriði fyrir ÍR-inga sem unnu öruggan sigur.

Quincy Hankins-Cole skoraði 30 stig fyrir ÍR og Matthías Orri Sigurðarson 28, ásamt því að hann gaf tólf stoðsendingar. Darrel Lewis var með 25 fyrir Þór. 

(25:18 - 43:33 - 75:53 - 100:78)

40 - (100:78) ÍR-ingar sigla sannfærandi sigri í hús. 

35 - (87:64) Matthías Orri skorar rosalega þriggja stiga körfu og kemur muninum í 23 stig. Ef þetta var ekki búið fyrir körfuna, þá er þetta svo sannarlega búið núna. ÍR er að jafna Þór á stigum. 

33 - (77:60) Þórsarar byrja síðasta leikhlutann nokkuð vel en þeir eru enn 17 stigum undir og aðeins sjö mínútur eftir. 

30 - (75:53) ÍR-ingar eru að klára þennan leik og það sannfærandi. Það þarf eitthvað ótrúlegt til að snúa þessu við í síðasta leikhlutanum. 

28 - (70:49) Þröstur Leó fær högg á andlitið og það blæðir úr honum. Þröstur slær boltann einu sinni tvisvar í pirring og fær dæmda á sig óíþróttamannslega villu. Þarna vantaði allan leikskilning í dómarana og ÍR fær gefins þrjú stig. Ótrúlega lélegur dómur. 

24 - (64:44) Slappur sóknarleikur í bland við að leyfa ÍR að taka, að er virðist endalaust af sóknarfráköstum er ekki góð uppskrift að leik í Seljaskóla. Þriggja stiga skotin hjá ÍR eru byrjuð að detta líka og er þetta ójafn leikur fyrir vikið. 

23 - (52:40) George Beamon nær sóknarfrákasti og fær víti. Hann skorar úr báðum vítunum og er hann kominn með fjögur stig, sem er langt frá hans besta. Sjáum hvort hann sé kominn í gang loksins. 

22 - (50:35) ÍR-ingar byrja seinni hálfleikinn af krafti og er munurinn orðinn 15 stig. Danero Thomas er að reynast sínum gömlu félögum erfiður með góðum þriggja stiga körfum. 

21 - Seinni hálfleikur er kominn af stað. 

20 - (43:33) Tryggvi Snær minnkaði þetta niður í átta stig áður en Matthías Orri skoraði síðustu körfu fyrri hálfleiks og kom muninum aftur í tíu stig. Matthías er kominn með 12 stig. 

18- (41:31) Smá svar frá Þórsurum stuttu fyrri hálfleik. Munurinn orðinn tíu stig. Þröstur Leó er að spila manna best hjá Þór en hann er kominn með átta stig. 

16 - (41:27) Danero Thomas skorar þriggja stiga körfu gegn sínum gömu félögum og kemur þeim í 41:27. Það þarf eitthvað mikið að breytast hjá gestunum ef þeir ætla að fá eitthvað úr þessum leik. 

14 - (36:22) Quciny kemur með rosalega troðslu og kveikir í húsinu. Munurinn er orðinn 14 stig og sóknarleikur Þórsara er arfaslakur. Benedikt tekur leikhlé og skiljanlega. George Beamon er aðeins með tvö stig hjá Þór. 

12 - (29:22) Þá skora ÍR-ingar næstu fjögur stigin og er munurinn orðinn sjö stig á ný. Matthías Orri er að spila gífurlega vel. 

11 - (25:22) Þórsarar skora fyrstu fjögur stig 2. leikhluta og minnka muninn í þrjú stig. 

10 - (25:18) ÍR-ingar kláruðu fyrsta leikhluta af miklum krafti og náðu sjö stiga forskoti. Sóknarleikur Þórsara varð tilviljunarkenndur og einstaklega slappur. ÍR-ingar eru óstöðvandi í þessu húsi og þeir nýttu sér það, þrátt fyrir að hafa aðeins hitt úr einu af sjö þriggja stiga skotum sínum í leiknum.  

6 - (13:15) Quincy Hankins-Cole er við það að troða þegar Tryggvi Snær Hlinason ver skotið hans glæsilega. Fyrir þá sem ekki vita að þá er 214 cm. 

5 - (11:11) Matthías Orri Sigurðarson nennir ekki að standa í því og skorar hann góða þriggja stiga körfu, þá fyrstu hjá ÍR í leiknum. 

4 - (6:10) Þriggja stiga nýting ÍR-inga er ekki góð í upphafi leiks og Þórsarar nýta sér það og ná fjögurra stiga forskoti. 

2 - (4:3) Ragnar Helgi Friðriksson skorar þriggja stiga körfu strax í upphafi en ÍR-ingar svara með næstu fjórum stigum. 

1. Leikurinn er hafinn. 

0. Bæði lið töpuðu síðasta leik. ÍR tapaði gegn KR, 95:73 og Þór tapaði fyrir nöfnum sínum frá Þorlákshöfn, 73:68.

0. Þór vann fyrri leik liðanna á Akureyri 78:62. ÍR-ingar eru eflaust staðráðnir í að hefna fyrir það í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert