Nú slökuðum við ekki á

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, kvaðst vera mjög ánægður með frammistöðu sinna kvenna í kvöld þegar þær lögðu Stjörnuna að velli í Stykkishólmi, 93:78, í fyrsta undanúrslitaleik liðanna á Íslandsmótinu í körfubolta.

„Bæði liðin léku af fullum krafti, stigaskorið var kannski aðeins of hátt, en ég er ánægður með að við fengum framlag úr mörgum áttum og útlendingurinn okkar (Aaryn Ellerberg) var frábær í dag, og átti líklega sinn besta leik í vetur,“ sagði Ingi við mbl.is.

Ingi sagði að það hefði aldrei verið hægt að slaka á gegn góðu liði Stjörnunnar sem væri með flottar stelpur, landsliðsmiðherja, góðar skyttur og einn af betri útlendingum deildarinnar. „Sautján stig er enginn munur í körfubolta og er fljótt að fara ef slakað er á. En munurinn á þessum leik og þeim síðasta gegn þeim var sá að nú slökuðum við ekki á. Stjarnan lék mjög vel en sem betur fer lékum við betur,“ sagði Ingi.

Viðtalið í heild má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert