Enn betri tilfinning eftir

Ólafur Ólafsson og félagar sópuðu Stjörnunni út í undanúrslitum Dominos-deildarinnar, …
Ólafur Ólafsson og félagar sópuðu Stjörnunni út í undanúrslitum Dominos-deildarinnar, flestum að óvörum. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hristi ekki oft hausinn en maður var farinn að gera það. Það fór gjörsamlega allt ofan í körfuna hjá okkur í dag. Hún var bara eins og tunna fyrir okkur,“ sagði Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur, eftir sigurinn magnaða á Stjörnunni í dag sem kom Grindvíkingum í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta.

Frétt mbl.is: Grindavík á ótrúlegu flugi í úrslitin

Grindavík byrjaði leikinn í dag af krafti og hafði í raun gert út um hann strax í fyrri hálfleik. Lokatölur urðu 104:69. Einvígið vann Grindavík 3:0.

„Við slökuðum aldrei á, höfum ekki gert það síðan í oddaleiknum gegn Þór [Þorlákshöfn]. Það var það sem skóp þetta fyrir okkur,“ sagði Ólafur.

„Við spiluðum harða vörn. Jóhann [Þór Ólafsson þjálfari] var búinn að fara vel yfir sóknina hjá þeim og hvernig við ættum að spila vörnina. Við klikkuðum á einhverjum atriðum en annars gekk allt vel í dag,“ sagði Ólafur.

Grindavík var spáð 10. sæti Dominos-deildarinnar af fyrirliðum, þjálfurum og forráðamönnum félaganna fyrir tímabilið. Raunin hefur heldur betur orðið önnur:

Ætlum í úrslitaeinvígið til að vinna það

„Þetta er hálfóraunverulegt en það er samt enn þá betri tilfinning eftir sem við getum náð. Ástæðan fyrir því að við erum í þessu er sú að við viljum fara í úrslitaeinvígið og vinna það. Við erum ekkert í þessu til að mæta á æfingar og halda okkur í formi. Nú förum við heim og hvílum okkur aðeins, æfum vel og mætum svo tilbúnir í næsta einvígi,“ sagði Ólafur.

Frétt mbl.is: Verð lengi að jafna mig á þessu

„Við erum með sjálfstraustið í botni og vitum alveg hvað við erum góðir í körfubolta. En þetta er enn þá að síast inn. Það fór bara allt niður í dag,“ bætti Ólafur við.

Sætti mig við að vera ruslakall þegar þetta er svona

Ólafur skoraði 12 stig í dag og tók 9 fráköst, en þurfti minna að láta til sín taka en ella þar sem liðsfélagar hans voru flestir sjóðheitir fyrir utan þriggja stiga línuna. Grindavík setti niður 17 af 31 þriggja stiga skoti sínu í leiknum, eða 54%.

„Þegar ég er að labba niðri í bæ er maður spurður af hverju maður sé ekki að skora meira. Það er bara þannig að þegar hinir eru að skora, þá sætti ég mig við að vera ruslakallinn sem tekur fráköstin og svona. Ég get alveg skotið einhverjum 20 skotum í leik og svona vesen, en stundum þarf að kyngja stoltinu. Ég stíg upp ef þess þarf, en á meðan þetta er svona er ég og liðið allt í ágætis málum,“ sagði landsliðsmaðurinn, áður en hann fór og spjallaði við landsliðsþjálfarann Craig Pedersen sem fylgdist með leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert