Ægir á leið í efstu deild?

Ægir Þór Steinarsson er á mikilli siglingu með liði San …
Ægir Þór Steinarsson er á mikilli siglingu með liði San Pablo Burgos. mbl.is/Árni Sæberg

Ægir Þór Steinarsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, og samherjar hans í San Pablo Burgos eru komnir í úrslitaeinvígið um sæti í efstu deildinni á Spáni eftir að hafa sópað liði Breogan út í undanúrslitunum í kvöld.

San Pablo hafði unnið fyrstu tvo leikina á útivelli og nægði því einn sigur enn. Hann náðist í kvöld, 92:81, og Ægir og samherjar unnu einvígið þar með 3:0.

Ægir spilaði í 23 mínútur og kom mikið við sögu, sérstaklega í að spila félaga sína uppi en hann átti sex stoðsendingar í leiknum. Þá skoraði hann þrjú stig og tók þrjú fráköst.

Sigur San Pablo er mjög sannfærandi, ekki síst vegna þess að Breogan hafnaði í öðru sæti B-deildarinnar í vetur en San Pablo í því þriðja.

Mótherji San Pablo í úrslitaeinvíginu verður annaðhvort Palencia eða Oviedo en þessi lið enduðu í fimmta og fjórða sæti deildarinnar í vetur. Palencia er yfir, 2:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert