Stórsigur gegn San Marínó

Jón Axel Guðmundsson skoraði 11 stig í kvöld.
Jón Axel Guðmundsson skoraði 11 stig í kvöld. Ljósmynd/KKÍ

Karlalandslið Íslands í körfuknattleik valtaði hreinlega yfir heimamenn í San Marínó á Smáþjóðaleikunum í kvöld og vann 42 stiga sigur, 95:53.

Eftir jafnræði í fyrsta leikhluta skoraði Ísland 26 stig gegn tíu í öðrum hluta og staðan var 41:24 í hálfleik. Í seinni hálfleik dró jafnt og þétt í sundur með liðunum og Ísland  gerði 31 stig gegn 18 í fjórða leikhluta.

Tryggvi Snær Hlinason var stigahæstur, eins og gegn Kýpur, en hann skoraði 15 stig og tók 10 fráköst. Kristófer Acox skoraði 13 stig, Jón Axel Guðmundsson 11, Kári Jónsson 10, Matthías Orri Sigurðarson 9, Þórir Þorbjarnarson 9, Pétur Rúnar Birgisson 7, Kristinn Pálsson 7, Ólafur Ólafsson 6, Gunnar Ólafsson 4, Maciej Baginski 3 og Emil Karel Einarsson eitt.

Íslenska liðið er því með einn sigur og eitt tap en það tapaði fyrir Kýpur í fyrsta leiknum. Þriðji leikurinn er gegn Andorra á morgun. Andorra steinlá fyrir Svartfjallalandi í dag, 49:90, en vann San Marínó, 84:69, í fyrstu umferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert