Nowitzki tekur 20. tímabilið með Dallas

Dirk Nowitzki.
Dirk Nowitzki. AFP

Þýski körfuknattleiksmaðurinn Dirk Nowitzki hefur gert nýjan samning við bandaríska NBA-liðið Dallas Mavericks.

Nowitzki, sem er 39 ára gamall, verður aðeins annar leikmaðurinn í sögu NBA sem spilar með sama liði 20 tímabil í röð en Kobe Bryant lék sama leik með Los Angeles Lakers.

Þjóðverjinn er orðinn goðsögn hjá Dallas en á síðustu leiktíð varð hann sjötti leikmaður í sögu NBA-deildarinnar til þess að skora yfir 30 þúsund stig en hann skoraði 14,2 stig að meðaltali á síðasta tímabili, sem var lélegasta stigaskor hans frá því hann steig sín fyrstu skref með Dallas tímabilið 1998-99 þegar hann skoraði 8,2 stig að meðaltali.

Nowitzki hefur skorað samtals 30,260 stig og er stigahæsti útlendingurinn frá upphafi í NBA-deildinni. Hann var útnefndur besti leikmaður deildarinnar tímabilið 2006-07 og besti leikmaður úrslitakeppninnar árið 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert