Pavel er til í allt á EM

Pavel Ermonliskij verður væntanlega í stöðu framherja í lokakeppni EM en íslenskir körfuboltaunnendur eru líklega vanari því að sjá kaupmanninn koma fram völlinn með boltann. 

Leikstjórnendahlutverkið verður hins vegar væntanlega í höndum Harðar Axels Vilhjálmssonar, Elvars Más Friðrikssonar og Ægis Þórs Steinarssonar. Pavel er 202 cm og nýtist því vel í framherjastöðunni. Hann lék til að mynda mjög vel í vanþakklátu hlutverki í vörninni gegn hávöxnum leikmönnum á EM í Berlín. 

„Ég hugsa að ég verði lítið í hinu [leikstjórnandahlutverkinu] því við eigum nóg af mönnum til að leysa þá stöðu. Ég verð í því að fylla upp í önnur göt og verð hálfgerður jóker. Ég verð sendur þangað þar sem vantar eitthvað. Ég er til í það. Ég er til í hvað sem er,“ sagði Pavel í samtali við mbl.is á hóteli landsliðsins í gær. 

Íslenska liðið mætir Grikklandi í fyrsta leik sínum í lokakeppninni í Helsinki í dag klukkan 13:30 að íslenskum tíma.

„Þetta verður brekka. Þegar komið er á þetta stig, lokakeppni EM, þá eru engir auðveldir leikir fyrir okkur. Gríska liðið er sterkt inni í teig sem kannski hentar okkur verr en við höfum sýnt að við getum barist á móti þessum stóru körlum og erum orðnir miklu betri í því en við vorum fyrir nokkrum árum,“ sagði Pavel meðal annars við mbl.is. 

Viðtalið við Pavel í heild sinni er að finna í meðfylgjandi myndskeiði.

Pavel Ermolinskij í vináttulandsleiknum gegn Litháen á dögunum.
Pavel Ermolinskij í vináttulandsleiknum gegn Litháen á dögunum. LINAS ZEMGULIS,Körfuknattleikssamband Litháens
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert