Verður Ísland á EM 2021?

Jón Arnór Stefánsson, Kristófer Acox og Martin Hermannsson eru af …
Jón Arnór Stefánsson, Kristófer Acox og Martin Hermannsson eru af mismunandi kynslóðum í landsliðinu. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Eftir að hafa komist inn á tvær síðustu lokakeppnir Evrópumóts karla í körfubolta getur Ísland næst farið á EM árið 2021. Fyrirkomulagi keppninnar hefur verið breytt og mun lokakeppnin fara fram á fjögurra ára fresti líkt og heimsmeistarakeppnin og Ólympíuleikarnir.

Fyrir örfáum árum þótti óhugsandi að Ísland kæmist á stórmót í körfubolta og hvað þá að liðið gæti lent í spennuleikjum á móti þjóðum eins og Ítalíu og Tyrklandi líkt og gerðist á EM 2015. Ísland hefur náð þeim árangri að komast á stórmót en staðreyndin er þó sú að Ísland tapar með um það bil þrjátíu stiga mun á móti liðum sem eru á meðal þeirra bestu í heimi. Má þar nefna leikina gegn Spáni og Serbíu árið 2015 og leikina gegn Frakklandi og Slóveníu á dögunum. Af þessum sökum er áhugavert að velta fyrir sér hvað íslenska körfuboltahreyfingin geti gert til að komast nær bestu liðunum í Evrópu?

Sterk kynslóð í U-20

Eins og staðan er í dag gætu verið forsendur fyrir því að Ísland eigi gott landslið árið 2021. Fyrir nokkrum árum þótti manni líklegt að landsliðið myndi veikjast til mikilla muna þegar Jón Arnór Stefánsson og hans kynslóð myndi hætta. Ekki bara vegna Jóns heldur einnig vegna leikmanna eins og Hlyns Bæringssonar, Loga Gunnarssonar, Jakobs Sigurðarsonar og Helga Magnússonar.

Nú horfir málið svolítið öðruvísi við. Sérstaklega vegna þess að Ísland komst í 8-liða úrslit á EM U-20 ára liða. Að ná árangri í þeim aldursflokki er nokkuð annað en að ná árangri í U-16 ára sem dæmi. Í því liði er að finna mjög efnilega leikmenn. Mest hefur borið á Tryggva Snæ Hlinasyni í þeirri umræðu en í liðinu var einnig Kári Jónsson sem var að margra mati orðinn besti Íslendingurinn í Dominos-deildinni í kringum 18 ára aldurinn.

Þá hefur Kristinn Pálsson lengi þótt mikið efni en hér heima hefur fólk ekki átt þess kost að sjá hann spila. Jón Axel Guðmundsson var í þessu landsliði í fyrra og vakti þá athygli. Er hann nú í háskólaliðinu sem Stephen Curry spilaði með. Þá lofar Þórir Guðmundur Þorbjarnarson góðu. Fleiri mætti nefna en þessir leikmenn verða í kringum 23 ára aldurinn árið 2021 eða á svipuðu reki og Martin Hermannsson er nú.

Sjá nánari fréttaskýringu um framtíð körfuboltalandsliðsins í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert