Okkur dauðlangaði í sigur

Sveinbjörn Claessen.
Sveinbjörn Claessen. mbl.is/Golli

„Það var ekki bara að við vildum, okkur beinlínis dauðlangaði í sigur, og við sýndum miklu meiri sigurvilja. Það er gríðarlega gott að byrja tímabilið á því að sækja sigur á heimavöll Tindastóls, þær gerast ekki mikið betri byrjanirnar en þetta, því að auðvitað vissum við vel að þetta yrði ekki auðvelt,“ sagði Sveinbjörn Claessen, leikmaður ÍR, eftir glæsilegan 74:71-sigur á Tindastóli á útivelli í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. 

Trausti Eiríksson, liðsfélagi hans, tók í sama streng. Tindastóll byrjaði mun betur, en með mögnuðum fjórða leikhluta tókst ÍR að komast yfir og tryggja sér sigur. 

Þetta var auðvitað erfitt, við byrjuðum á því að grafa okkur allt of djúpa holu í byrjun, en það er fínn karakter í þessu liði og við vissum að við yrðum og við gætum komið til baka. Þó að við vissum líka að það yrði ekki auðvelt á sterkum heimavelli eins af bestu liðunum í deildinni. Við vorum fyrst allt of mikið að pæla í því hvernig þetta yrði, en svo létum við allar pælingar til hliðar og spiluðum eins og við gerum best og höfum gaman af því,“ sagði Trausti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert