Heppnara liðið vinnur svona jafna leiki

Ricardo Gonzáles talar við sitt lið í kvöld.
Ricardo Gonzáles talar við sitt lið í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ricardo Gonzáles, þjálfari Skallagríms, var stoltur af sínu liði, þrátt fyrir 70:67-tap gegn Val í Dominos-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Guðbjörg Sverrisdóttir skoraði þriggja stiga körfu í blálokin og tryggði Val sigur.

„Ég er stoltur af liðinu. Þetta var erfiður leikur og við höfum bara æft í þrjár vikur. Við erum bara með 6-7 leikmenn til að spila á og Fanney meiddist í 3. leikhluta. Við vorum að spila á móti mjög góðu liði sem vann fyrstu tvo leikina og þar á meðal Keflavík."

„Við spiluðum harða vörn fyrir utan fyrstu 5-6 mínúturnar en vorum svolítið óheppin. Í svona jöfnum leik er það oft liðið sem er heppnara sem vinnur. Þær náðu þriggja stiga skotinu í lokin og þannig fór það."

Valskonur höfðu yfirburði í 1. leikhluta en eftir það jafnaðist leikurinn og varð að lokum æsispennandi. 

„Við vorum mjög hæg og léleg í vörninni í 1. leikhluta og fengum 25 stig á okkur. Í næstu þremur leikhlutum fengum við aðeins 15 stig á okkur. Við verðum að byrja leiki betur, en heilt yfir spiluðum við vel."

Fanney Lind Thomas þurfti að fara meidd af velli í 3. leikhluta og virtist hún finna til í hálsinum. Hún var að lokum borin af velli. 

„Ég veit ekki hversu alvarlegt þetta er. Ég þurfti að einbeita mér að leiknum. Ég verð að tala við eiginmanninn hennar, vonandi er þetta ekkert alvarlegt," sagði Gonzáles að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert