Ungu strákarnir með risastóran pung

Ingvi Rafn lætur vaða í kvöld og gerir þriggja stiga …
Ingvi Rafn lætur vaða í kvöld og gerir þriggja stiga körfu. Hinn ungi Júlíus Orri tilbúinn í horninu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ingvi Rafn Ingvarsson átti prýðis góðan leik fyrir Þór Ak. þegar þeir lögðu Keflavík á heimavelli, 90:78. Ingvi var þó pollrólegur þrátt fyrir góðan sigur þegar mbl.is náði tali af honum „Þetta var svona baráttusigur og við ætluðum að eiga betri leik en gegn Haukum þar við við vorum góðir í 30 mínútur en klikkuðum eftir það,“ sagði Ingvi.

Leikurinn var í járnum framan af og var örugglega einhverjum hugsað til Haukaleiksins þegar að Þór spilaði leiknum frá sér í 4. leikhluta en í stöðunni 58:58 um miðjan þriðja leikhluta gáfu Þórsararnir í og litu aldrei til baka. Ingvi gaf þessa skýringu: „Vörnin small bara. Allt annað að sjá hana í seinni hálfleik og þegar þú spilar vörn þá færðu auðveldar körfur hinum megin.“

Þór Ak. var spáð neðsta sætinu en Ingvi sagði það lítil áhrif hafa á liðið „Það er mikið eftir af mótinu og við tökum bara einn leik í einu. Okkur er alveg sama um þessa spá.“

Þrátt fyrir að vera rétt 23 ára gamall er Ingvi orðinn einn reynslumesti maðurinn í liðinu og því ekki úr vegi að spyrja hann út í frammistöðu enn yngri leikmanna sem vöktu athygli „Júlíus var geggjaður í dag og ungu strákarnir eru bara með risastóran pung eins og sagt er,“ sagði Ingvi Rafn Ingvarsson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert