„Saga Tryggva er einsdæmi“

Tryggvi Snær Hlinason á fyrsta degi sem leikmaður Valencia.
Tryggvi Snær Hlinason á fyrsta degi sem leikmaður Valencia. Valenciabasket.com

Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður í körfubolta, er einn þeirra fimm leikmanna sem taldir eru efnilegastir í körfubolta í Evrópu samkvæmt vefsíðunni eurohoops.net.

Tryggvi, sem gekk til liðs við spænska stórliðið Valencia í sumar, er í góðum hópi en á meðal annarra leikmanna sem taldir eru til sögunnar er Slóveninn Luka Doncic. Hinn 18 ára Doncic fór á kostum þegar Slóvenar urðu Evrópumeistarar í körfubolta í sumar og er í lykilhlutverki hjá Real Madrid.

„Saga Tryggva er einsdæmi,“ segir meðal annars í umfjöllun um hinn 19 ára gamla Norðlending. Einnig kemur fram að Tryggvi hafi byrjað að æfa körfubolta þegar hann var 15 ára gamall og fjórum árum síðar semji hann við Valencia.

Ferill Tryggva er rakinn en sagt er frá því að hann hafi byrjað að æfa körfubolta þegar hann flutti til Akureyrar í framhaldsskóla. Áður hafði hann búið á frekar einangruðum bóndabæ.

Greinarhöfundur gerir ekki ráð fyrir því að Tryggvi muni spila lykilhlutverk með Valencia í vetur, heldur muni hann fá tækifæri til að þróa og slípa leik sinn frekar. 

„Njósnarar úr NBA-deildinni muni fylgjast með honum sem og njósnarar úr evrópskum stórliðum,“ segir í lok greinar um Tryggva. Einstök saga hans gæti því átt eftir að verða áhugaverðari.

Greinina má lesa í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert