Getum tekið margt jákvætt úr leiknum

Berglind Gunnarsdóttir tekur vítaskot í leiknum í dag.
Berglind Gunnarsdóttir tekur vítaskot í leiknum í dag. mbl.is/Stella Andrea

Hildur Sigurðardóttir, aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta, er nýkomin inn í þjálfarateymi liðsins og var bara nokkuð sátt við frammistöðu liðsins þrátt fyrir sannfærandi tap. „Þessi leikur var ekkert alslæmur. Við byrjuðum nokkuð vel og vorum að láta boltann ganga vel og vorum að fá fín skot. Um leið og við fórum að dripla og hamast á boltanum þá fór þetta að vera erfiðara fyrir okkur. Það er hægt að byggja ofan á þennan leik myndi ég segja.“

Spurð út í næsta leik gegn Slóvakíu á mánudaginn sagði Hildur að þjálfarateymið ætti eftir að skoða liðið betur en Ísland hefði tapað stórt úti gegn þeim síðast. „Það býður okkar bara annar sterkur andstæðingur þannig að við þurfum að mæta tilbúin í þann leik. Þetta eru allt hörkulið með okkur í riðli og gaman fyrir stelpurnar að spreyta sig gegn sterkum andstæðingum. Þær sjá þá hvar þær standa.“

Hildur er margreyndur landsliðsmaður sem þekkir það vel að spila fyrir Íslands hönd. En hvernig er hún að finna sig í því hlutverki að gefa góð ráð frá hliðarlínunni? „Það er mjög skemmtilegt. Ég hef aldrei áður verið aðstoðarþjálfari en það er gaman að vera komin aftur inn í þennan landsliðshóp. Ég er aðallega núna að hvetja stelpurnar áfram en er alltaf að komast betur inn í þetta hlutverk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert