Fórna þeir persónulegri velgengni fyrir hagsmuni liðsins?

Sigtryggur Arnar Björnsson hefur smellpassað inn í lið Tindastóls.
Sigtryggur Arnar Björnsson hefur smellpassað inn í lið Tindastóls. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áður en Íslandsmót karla í körfuknattleik hófst var þremur liðum spáð hvað bestu gengi og flestir voru á því að KR, Tindastóll og Grindavík væru þau lið sem væru líklegust til að berjast um þann stóra.

Stólarnir hafa verið sannfærandi undanfarið og sitja í efsta sætinu núna eftir átta umferðir. Þeir bættu við sig tveimur sterkum leikmönnum í þeim Arnari Kárasyni og Sigtryggi Arnari Björnssyni. Til að byrja með var liðið að spila langt undir getu en Israel Martin, þjálfari liðsins, hefur fengið mannskapinn til að smella saman og er allt annað að sjá liðið í dag.

Það er ósköp eðlilegt að það hafi tekið smá tíma að fá menn á sömu blaðsíðu. Maður vill líka alltaf eiga slatta inni í upphafi móts og bæta síðan leik liðsins jafnt og þétt eftir því sem líður á tímabilið og toppa í úrslitakeppninni.

Með komu þessara tveggja leikmanna hafa aðrir þurft að sætta sig við minni hlutverk en þeir eru vanir. Það er algjört lykilatriði að þeir geri það ef þetta á að ganga hjá Stólunum í vetur. Í hverju meistaraliði er mikilvægt að hafa góða leikmenn sem eru tilbúnir að fórna persónulegri velgengni fyrir hagsmuni liðsins. Það eru þessir leikmenn sem skilja oft á milli hvort það vinnist titill eða ekki.

Ítarlega yfirlitsgrein um stöðu mála í Dominos-deild karla í körfuknattleik má finna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert