Mikil orka fór í varnarleikinn

Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Martin Hermannsson var stigahæstur með 29 stig þegar Ísland tapaði fyrir Tékklandi 89:69 í undankeppni HM í körfuknattleik í dag. Martin sagði mikinn mun hafa verið á hittni liðanna að þessu sinni. 

„Tékkarnir hittu vel fyrir utan þriggja stiga línuna en á sama tíma hittum við ekki neitt. Í fyrri hálfleik fannst mér við oft gera vel í vörninni en þegar þeir hittu ekki þá náðu þeir sóknarfráköstum og skoruðu kannski í framhaldinu. Það er dýrt fyrir lið eins og okkur þegar við náum ekki að stíga út eftir að hafa spilað flotta vörn. Úr verður kannski auðveld karfa eftir sóknarfrákast. Okkur vantar auðvitað meiri hæð og það hefði verið gott að hafa Tryggva (Snæ Hlinason) og Pavel (Ermolinskij). Mikil orka fer í að skipta á hindrunum og reyna að stíga þessa menn út. Ég held að það hafi bitnað svolítið á okkur í sókninni,“ sagði Martin þegar mbl.is spjallaði við hann.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert