Ekki í mínu eðli að leggja mig á daginn

Tryggvi Snær Hlinason á fyrsta degi sem leikmaður Valencia.
Tryggvi Snær Hlinason á fyrsta degi sem leikmaður Valencia. Ljósmynd/Valenciabasket.com

Tryggvi Snær Hlinason, hinn tvítugi Bárðdælingur sem kom eins og stormsveipur inn í íslenskt körfuboltalíf fyrir örfáum árum, fluttist í haust til Spánar þar sem hann spilar nú með spænska meistaraliðinu Valencia. Mbl.is tók hann tali í Laugardalshöll í dag þar sem hann var að ljúka æfingu með íslenska landsliðinu sem mætir Búlgaríu á morgun.

Tryggvi Snær var ekki með landsliðinu á útivelli gegn Tékklandi á föstudag, en hann fékk ekki leyfi frá Valencia til þess að fara til móts við landsliðið. Var erfitt að horfa á leikinn í sjónvarpinu?

„Það var öðruvísi. Einn sem var með mér sagði einmitt að það væri skrítið að horfa á landsliðið núna og ég væri hliðina á honum. Það var vissulega leiðinlegt en á sama tíma treystir maður þeim að gera sitt besta og nú er bara að halda áfram,“ sagði Tryggvi, en landsliðið tapaði úti fyrir Tékkum 89:69.

For­svars­menn Euroleague, Evr­ópu­keppni 16 af bestu fé­lagsliðum álf­unn­ar, deila við alþjóða körfu­bolta­sam­bandið, FIBA, og setja leiki deildarinnar á sama tíma og landslið álfunnar eru í eldlínunni. Það þýðir að félög meina oft leikmönnum sínum að fara í landsleiki og sú var raunin með Tryggva.

Er bara peð í þessu stríði

Eftir miklar samningaviðræður fékkst það hins vegar í gegn að hann spili gegn Búlgörum á morgun, en var ekki með gegn Tékkum enda spilaði Valencia kvöldið áður. Hafði þetta áhrif á Tryggva sjálfan?

„Euroleague og FIBA eru með þetta stríð sitt, en ég get ekki haft áhrif á það. Þetta eru stærstu hlutarnir í körfuknattleikshreyfingunni og maður er bara peð í þeim leik. Ég vonaði bara að það besta og treysti á að KKÍ og Valencia kæmust að samkomulagi. Það tókst og ég er mjög sáttur við það,“ sagði Tryggvi, sem býst við hörkuleik gegn Búlgörum.

„Þetta er hörkulið. Ég er bara búinn að ná einni æfingu og er að fara yfir kerfin í fyrsta sinn síðan á Eurobasket. En þetta er sem betur fer svipuð kerfi svo maður man þetta ennþá, þetta er fljótt að rifjast upp.“

Tryggvi Snær Hlinason.
Tryggvi Snær Hlinason. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þetta er dásamlegt, skemmtilegt og spennandi

Tryggvi var í eldlínunni með Íslandi á EM í Finnlandi í september og flutti í kjölfarið til Spánar. Hann hefur nú verið þar í tæpa þrjá mánuði, en hvernig eru fyrstu kynni?

„Þetta er bara geggjað og frábær staður til að bæta sig. Það er vel séð um mann og svo er bara skemmtilegt að prófa að búa í allt öðru samfélagi. Ég mæti þarna og kann ekki neitt í spænsku en þarf samt að bjarga mér. Ég er byrjaður að læra spænskuna og þetta er bara dásamlegt, skemmtilegt og spennandi,“ sagði Tryggvi einlægur.

Blaðamaður kemst ekki hjá því að spyrja Tryggva hvort hann sé farinn að taka síðdegislúr á daginn eins og Spánverjar eru svo þekktir fyrir?

„Það kemur fyrir, en þetta kemst bara ekki í vana. Ég get ekki allt í einu bara farið að leggja mig, það er ekki í mínu eðli. En það er víst lykill sem íþróttamaður að vera vel hvíldur, svo maður verður að fara að gera þetta meira,“ sagði Tryggvi.

Tryggvi Snær Hlinason og foreldrar hans, Hlini Jón Gíslason og …
Tryggvi Snær Hlinason og foreldrar hans, Hlini Jón Gíslason og Guðrún Sigríður Tryggvadóttir. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Nýtur þess að kynnast lífsstílnum

Þegar Tryggvi samdi við Valenica var talið að hann yrði fyrst og fremst með varaliðinu á meðan hann kæmist í takt við hlutina. Svo hefur þó alls ekki verið heldur hefur hann verið mikið í hópnum hjá aðalliðinu og meira að segja spilað í Evrópukeppni víða um álfuna. Sannarlega stórt stökk frá því að eiga aðeins eitt tímabil í efstu deild hér á landi.

„Ég er búinn að fara í allar áttir; til Rússlands og Tyrklands og alls staðar í Evrópu. Valencia er með 14 leikmenn sem aðalliðsleikmenn, en að meðaltali eru þrír eða fjórir menn meiddir þannig að maður er inni í hópnum. Maður græðir hitt og þetta á því, en hefur á sama tíma minni tíma til að vinna í sjálfum sér. En ég reyni að njóta þess að kynnast lífsstílnum og það er gaman að taka þátt í þessu,“ sagði Tryggvi.

Tryggvi Snær Hlinason í leik með Valencia.
Tryggvi Snær Hlinason í leik með Valencia. Ljósmynd/Valencia

Svipað að fara með rútu og einkaflugvél

Tryggvi spilaði með Þór á Akureyri hér á landi áður en hann fór út. Blaðamaður spyr hvernig það sé að fara ekki lengur upp í rútu fram og til baka suður yfir heiðar í leiki, en þess í stað upp í flugvél til Moskvu og fleiri staða.

„Það er frekar fyndið að þetta er orðið eiginlega bara svipað fyrir mér. Hér áður fyrr fór maður upp í rútu til Reykjavíkur og fer þá bara í einhvern ham þar sem maður er rólegur á leiðinni. Núna geri ég það sama, nema í staðinn fyrir að það sé fimm tíma í rútu þá er það fimm tíma flug,“ sagði Tryggvi og brosti út í annað, en það er ljóst að það er vel hugsað um liðið á ferðalögum.

„Þetta er mjög vel sett upp fyrir okkur, við erum oft í einkaflugi og það er bara tær snilld. Sérstaklega eftir leiki, að fara beint upp á flugvöll og þarf að bíða í 30 mínútur áður en maður fer heim. En þetta er bara geggjað,“ sagði Tryggvi Snær Hlinason við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert