„Ég hætti aldrei að vera Íslendingur, það heldur í mér lífinu, en ég viðurkenni það að ég hugsa á norsku og ég tala norskuna betur en íslenskuna eftir 22 ára búsetu í Noregi,“ segir Þórir Hergeirsson, aðstoðarþjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik.
Það eru miklar líkur á því að Noregur landi verðlaunum á Ólympíuleikunum en liðið er komið í undanúrslit eftir öruggan sigur gegn Svíum á mánudag.
Þórir var mjög líflegur á hliðarlínunni á meðan leikur Norðmanna og Svía fór fram. Hann gaf fyrirmæli um hitt og þetta, en Marit Breivik er aðalþjálfari liðsins.
„Okkar samstarf hófst árið 1994. Þá var ég þjálfari yngsta kvennalandsliðs Noregs og Marit var að taka við A-landsliði kvenna. Ég var með hennar starfsliði á ÓL í Sydney en þar var mitt hlutverk að leikgreina leiki Noregs og andstæðingana. Ég er að taka þátt í mínum fyrstu Ólympíuleikum sem aðstoðarþjálfari þar sem við „skitum á okkur“ á heimsmeistaramótinu árið 2003 í Króatíu og komumst ekki á ÓL í Aþenu,“ segir Þórir en hann er 44 ára gamall Selfyssingur.
Þórir segir að hann hafi margoft farið í samningaviðræður við eiginkonuna um að flytja til Íslands. „Ég hef reynt það oftar en 10 sinnum, án árangurs. Þetta er allt erfiðara þegar börnin eru búin að festa rætur í því samfélagi sem við búum í. Ég sé ekki að við flytjum neitt úr þessu.“