Irina hlaut 53,200 í einkunn

Irina Sazonova er á sínum fyrstu Ólympíuleikum en ætlar einnig …
Irina Sazonova er á sínum fyrstu Ólympíuleikum en ætlar einnig að keppa í Tókýó. mbl.is/Árni Sæberg

Irina Sazonova hlaut í kvöld 53,200 í einkunn í forkeppni áhaldafimleika á Ólympíuleikunum í Ríó. Eyþóra Elísabet Þórsdóttir fékk 57,566 stig en hún keppir fyrir Holland og er á leið í úrslit í fjölþraut í einstaklingskeppninni.

Sjá einnig: Eyþóra áttunda og Irina í 40. sæti

Ljóst er að Irina kemst ekki í úrslit en þangað fara tuttugu og fjórar fimleikakonur sem bestum árangri náðu í dag og í kvöld. Hún bætti engu að síður árangur sinn frá því í forkeppni Ólympíuleikanna.

Irina fékk í kvöld 13,800 stig fyrir stökk. Hún færði sig svo yfir á tvíslá þar sem hún gerði æfingar upp á 13,500 stig. Á jafnvægisslá fékk Irina 12,900 stig og fyrir gólfæfingarnar í lokin fékk Irina 13,000 stig.

Irina keppti í riðli fjögur og var í hópi með tveimur öðrum keppendum sem taka þátt í einstaklingskeppninni. Á sama tíma keppti hollenska landsliðið, með Eyþóru Elísabetu Þórsdóttur innanborðs, og bandaríska landsliðið, sem og annar hópur fjögurra einstaklinga.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

21.54 - Simone Biles kveikir vel í höllinni með mögnuðum æfingum á jafnvægisslá. Þar með er keppni í þessum riðli lokið og hægt að sjá hver staðan er áður en síðasti riðillinn keppir síðar í kvöld.

21.47 - Eyþóra fékk 14,900 stig fyrir stökk sitt og er því með 57,566 í heildareinkunn. Hún keppir í úrslitum í fjölþraut, það er alveg ljóst.

21.45 - Irina fékk samtals 53,200 stig hér á sínum fyrstu Ólympíuleikum og ég held að það sé alveg óhætt að óska henni til hamingju með það, þó að auðvitað hafi hún viljað meira.

21.44 - Irina fær 13,000 stig fyrir gólfæfingarnar, brosir og veifar framan í myndavélina. Þá hefur hún lokið keppni í kvöld.

21.42 - Irina var fyrst til að gera gólfæfingarnar í sínum hópi og við bíðum nú einkunnar. 

21.37Fjórða áhald. Irina lýkur keppni á gólfæfingum. Eyþóra og stöllur í hollenska liðinu enda á stökki.

21.35 - Eyþóra fær 13,633 stig fyrir gólfæfingarnar og vonbrigðin leyna sér ekki. Svona getur íþróttin verið grimm. Kvöldið búið að ganga mjög vel en eitt misheppnað stökk er svo dýrkeypt.

21.32 - Flottar gólfæfingar hjá Eyþóru og skemmtilegt atriði, en því miður féll hún í lokin.

21.28 - Irina fékk 12,900 stig á jafnvægisslá og það er hærri einkunn en hún hefur fengið á því áhaldi á mótum þessa árs. Gott mál. Eyþóra er svo að gera sig klára fyrir gólfæfingar.

21.26 - Irina búin á jafnvægisslánni. Nú bíðum við bara eftir einkunn.

21.22 - Simone Biles með flottar æfingar á tvíslá og henni er fagnað vel. Irina er tilbúin að fara á jafnvægisslána.

21.15 - Þriðja áhald. Nú er aftur skipt um áhald. Irina keppir næst á jafnvægisslá en Eyþóra í gólfæfingum. 

21.10 - Eyþóra átti þriðju hæstu einkunn Hollendinga á jafnvægisslá og er nú í næstefst þeirra hollensku í heildarstigakeppninni.

21.03 - Irina var að ljúka sínum æfingum á tvíslá og virtist ekki sérlega ánægð með hvernig til tókst þar sem hún gekk til Vladimirs Antonovs þjálfara og Berglindar Pétursdóttur liðsstjóra. Einkunnin var upp á 13,500 stig. Til samanburðar þá fékk Irina 13,533 stig í forkeppninni í apríl. Hún var alveg við sitt besta.

21.00 - Ég er nú ekki vanur að halda með stórþjóð eins og Bandaríkjunum í íþróttum, en það er erfitt annað en að heillast af frammistöðu bandaríska liðsins.

20.57 - Eyþóra var fyrst þeirra hollensku á jafnvægisslána og gerði æfingar upp á 14,300 stig.

20.50 - Annað áhald. Þá er fyrstu umferð lokið og hóparnir færa sig á næsta áhald. Irina keppir nú á tvíslá og Eyþóra á jafnvægisslá. Eyþóra fékk hæstu einkunn þeirra hollensku á tvíslánni.

20.46 - Þær bandarísku fá mesta athygli hérna eins og gefur að skilja, og Simone Biles var vel fagnað þegar hún gerði gólfæfingar sem skiluðu 15,733 stigum.

20.38 - Eyþóra sýndi frábærar æfingar á tvíslá og fékk 14,733 stig fyrir. Þegar hún setti Hollandsmet í fjölþraut í sumar fékk hún 14,233 stig á tvíslá.

20.33 - Fyrsta áhald. Irina átti fyrsta stökk kvöldsins og fékk 13,800 stig fyrir. Það er örlítið lægra en hún fékk á EM í sumar og í forkeppni ÓL í apríl. Irina fékk 5 stig fyrir erfiðleikastig og 8,800 fyrir framkvæmd.

20.30 - Keppendur hita nú upp og gera sig endanlega klára fyrir keppnina.

20.27 - Og nú labba keppendur inn á gólfið. Irina byrjar á stökki, eins og fyrr segir. Koma svo!

20.25 - Dómararnir eru búnir að koma sér fyrir. Þeirra vinna er nú ekki sú auðveldasta og það er mikil pressa á þeim.

20.20 - Bandarísku stjörnurnar sem láta ljós sitt skína hérna í höllinni, á sama tíma og Irina og Eyþóra, ætla sér að verja titilinn sem Bandaríkin unnu í liðakeppni á Ólympíuleikunum í London. Tvær þeirra geta komist í úrslitin í fjölþraut í einstaklingskeppninni, en ekki mega fleiri keppa þar frá hverri þjóð.

20.17 - Nú er komið í gang skemmtiatriði með góðri frumskógarstemningu, á meðan að áhorfendur eru að koma sér fyrir í sætum sínum.

20.15 - Það er létt stemning hérna í höllinni núna, áður en alvaran hefst, og verið að kynna fyrir áhorfendum hvernig áhöldin og æfingarnar á þeim virka, með sýnidæmum úr smiðju náunga sem lætur eins og hann viti ekkert hvað hann er að gera.

20.10 - Það verður líka gaman að fylgjast með Eyþóru hér í kvöld. Hún á íslenska foreldra en er fædd og uppalin í Hollandi. Hún setti hollenskt met í fjölþraut í sumar, þegar hún fékk 58,058 stig á hollenska meistaramótinu.

20.00 - Það eykur eflaust enn á upplifunina hjá Irinu að vera hér innan um bandaríska stjörnuliðið. Hún hefur sjálf tippað á að Simone Biles fagni ólympíumeistaratitlinum í fjölþraut.

19.50 - Irina hefur sett stefnuna á að ná 54 stigum í fjölþrautinni, og dreymir um að komast í 24 manna úrslitin. Það er hins vegar gríðarlega erfitt, og eftir að keppni í þremur riðlum af fimm er lokið þá duga 54 stig til 22. sætis. Irina fékk 52,931 stig í forkeppni Ólympíuleikanna hér í Ríó í apríl. Þá skiptist einkunnin þannig að Irina fékk 13,866 stig í stökki, 13,533 stig á tvíslá, 12,866 stig á jafnvægisslá, og 12,666 stig í gólfæfingum.

19.40 - Fyrirkomulagið er þannig að Irina keppir á einu áhaldi ásamt þeim Courtney McGregor frá Nýja-Sjálandi og Sherine Elzeiny frá Egyptalandi, og á sama tíma keppir hollenska landsliðið á öðru áhaldi og bandaríska landsliðið á því þriðja. Irina byrjar á stökki, keppir svo á tvíslá, því næst jafnvægisslá og loks í gólfæfingum.

19.30 – Gott kvöld og verið velkomin í beina textalýsingu Mbl.is héðan úr fimleikahöllinni í Ríó þar sem Irina Sazonova keppir fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikum, fyrst kvenna. Þetta er hátíðarstund og gaman að eiga fulltrúa í þessari frábæru íþrótt, á stærsta sviði íþróttanna. Fimleikahöllin er öll hin glæsilegasta og það má búast við mikilli stemmningu hér í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert