Glæstur sigur Biles - Eyþóra í 9. sæti

Simone Biles sýndi meðal annars frábærar gólfæfingar.
Simone Biles sýndi meðal annars frábærar gólfæfingar. AFP

Simone Biles frá Bandaríkjunum varð í kvöld ólympíumeistari í áhaldafimleikum, í fjölþraut, og var sigur hennar afar glæsilegur. Eyþóra Elísabet Þórsdóttir varð í 9. sæti.

Allir bjuggust við sigri Biles í kvöld og hún stóð undir þeim væntingum. Hún fékk samtals 62,198 stig en næst á eftir varð Aly Raisman, einnig frá Bandaríkjunum, með 60,098 stig. Aliya Mustafina frá Rússlandi fékk brons með 58,665 stig, eða 0,116 stigum meira en næsti keppandi.

Biles fékk hæstu einkunn á þremur áhöldum af fjórum. Það var aðeins á tvíslá sem hún var ekki efst, en þar átti hún 7. bestu æfinguna. Biles fékk 15,866 stig í stökki, 14,966 stig á tvíslá, 15,433 stig á jafnvægisslá og 15,933 stig í gólfæfingum.

Eyþóra, sem keppir fyrir hönd Hollands en á íslenska foreldra, náði ekki eins hárri einkunn í kvöld  og þegar hún keppti í liðakeppninni í fyrrakvöld. Hún fékk samtals 57,632 stig en hafði fengið 58,199 stig í liðakeppninni. Sá stigafjöldi hefði skilað henni 6. sæti í kvöld.

Eyþóra fékk 14,833 stig í stökki, 14,2 stig á tvíslá, 14,066 stig á jafnvægisslá og 14,533 stig fyrir gólfæfingar sínar sem vakið hafa mikla athygli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert