Danir sigursælir í badminton

Daníel Thomsen og Margrét Jóhannsdóttir komust lengst Íslendinga í mótinu.
Daníel Thomsen og Margrét Jóhannsdóttir komust lengst Íslendinga í mótinu. Árni Gestur Sigfússon

Danir voru sigursælir á badmintonkeppni Reykjavíkurleikanna um helgina en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni og gefur stig á heimslista. Rúmlega 100 erlendir gestir tóku þátt frá 24 löndum og hafa aldrei verið fleiri í 18 ára sögu mótsins. Lengst Íslendinga komust þau Daníel Thomsen og Margrét Jóhannsdóttir en þau féllu úr keppni í 8 liða úrslitum eftir harða baráttu við skoskt par.

Milan Ludik frá Tékklandi sigraði í einliðaleik karla. Hann spilaði gegn Matthias Almer Austurríki í úrslitum og fór leikurinn 21/9 og 21/19. Ludik var einnig með í fyrra en féll þá út í undanúrslitum. Í samtali eftir leik sagðist hann vonast til að vinna landsmót Tékka um næstu helgi en heldur svo áfram að ferðast um Evrópu til að safna stigum til að komast á Ólympíuleikana 2016 eins og svo margir aðrir þátttakendur á mótinu um helgina.

Mette Poulsen frá Danmörku sigraði Nanna Vainio frá Finnlandi í úrslitaleik í einliðaleik kvenna. Búist var við mjög jöfnum leik en Mette mætti mun ákveðnari til leiks og sigraði með miklum yfirburðum 21-11 og 21-9. Í undanúrslitum lagði hún silfurverðlaunahafann frá því í fyrra Akvile Stapusaityte frá Litháen.

Martin Campbell og Patrick Machough frá Skotlandi unnu Frederik Aalestrup og Kasper Dinesen frá Danmörku í úrslitum í tvíliðaleik karla. Skotarnir finna sig greinilega vel hér á landi því þeir unnu einnig árið 2014 og fengu silfurverðlaun árið 2012.

Í úrslitum í tvíliðaleik kvenna mættust tvö dönsk pör, Lena Grebak og Maria Helsbol annarsvegar og Emilie Juul Moller og Cecille Sentow hinsvegar. Þær fyrrnefndu sigruðu samlöndur sínar örugglega 21-13 og 21-12. Athygli vakti hvað dönsku tvíliðaleikspör kvenna stóðu sig vel en öll pörin í bæði undanúrslitum og úrslitum voru dönsk.

Úrslitin í tvenndarleik voru einnig dönsk en þar mættust Nicklas Mathiasen og Cecilie Bjergen þeim Lasse Moelhede og Trine Villadsen. Nicklas og Cecilie sigruðu nokkuð örugglega 21-11 og 21-15 en þau voru í öðru sæti á mótinu í fyrra.

Úrslit allra leikja má finna hér.

Á YouTube rás Badmintonsambands Íslands má finna viðtöl og klippur úr leikjum allra sigurvegara ásamt fleira áhugaverðu efni frá mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert