Fann fyrir hungrinu á milli stiga

Þórdís Ylfa Viðarsdóttir úr Skylmingadeild FH bar sigur úr býtum í skylmingum Reykjavíkurleikanna 2015 eftir æsilegan úrslitaleik við vinkonu sína Aldísi Eddu Ingvarsdóttur en Þórdís vann með minnsta mun, 15:14.

„Þetta var mjög naumur sigur. Við tökum þetta yfirleitt 15:14 og við höfum stundum sagt að við ættum bara að skylmast upp í 14 og taka svo skæri blað steinn hver vinnur. Við erum svo jafnar,“ sagði Þórdís í samtali við mbl.is eftir sigurinn. Hún viðurkenndi að það væri ekki eins skemmtilegt að vinna vinkonu sína eins og aðra keppendur, en hún var einnig farin að finna vel fyrir hungrinu í úrslitaleiknum.

„Ég var rosalega svöng, alveg rosalega. Maður gleymir því á meðan maður er að skylmast en finnur vel fyrir því þegar á að koma sér fyrir á línunni aftur,“ sagði Þórdís Ylfa, en nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeiði, meðal annars um fækkun keppenda á milli ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert