Feitir og lúsugir streyma í ána

Laxinn í ár er vel haldinn og feitur.
Laxinn í ár er vel haldinn og feitur. mbl.is/Einar Falur

Undanfarna tíu daga hefur Straumfjarðará í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi tekið hressilega við sér eftir fremur hæga byrjun í sumar. Er veiðin þar nú í fullum gangi og feitir og lúsugir laxar streyma upp ána. 

„Það er að koma inn mjög mikið af nýjum fiski. Mér leist hins vegar ekkert á fyrstu þrjár vikurnar - svo hægt fór þetta af stað, en núna er stór straumur,“ segir Ástþór Jóhannsson, umsjónarmaður Straumfjarðarár, í samtali við mbl.is. „Það er mikill fiskur neðst í ánni sem er að ganga upp.“ 

Straumfjarðará dregur einkum til sín vatn úr Baulárvallarvatni og uppsprettum Köldukvíslar í Kerlingarskarði. Greið leið er fyrir laxinn að ganga frá ósi og upp í efstu veiðistaði, en laxgengur hluti árinnar er um 12 kílómetrar. 

Aðspurður segir Ástþór nú búið að veiða um 170 laxa, en heildarveiðin í fyrra var hins vegar 316. Eru menn því vongóðir um að áin gefi betur í ár.  „Mest eru þetta sprækir sex pundarar,“ segir hann og bætir við að laxinn í ár sé mjög vel haldinn, feitur og pattaralegur. 

„Veiðin í ár minnir einna mest á árin 2008 og 2011. Þá fór þetta mjög rólega af stað hjá okkur, en bæði árin enduðu mjög vel,“ segir hann. Var heildarveiði árið 2011 rúmlega 400 laxar en 2008 var veiði enn meiri eða rúmlega 700.

„Ég get lofað því að þeir sem hér verða í fyrstu rigningunni munu heldur betur fá mikið fyrir aurinn,“ segir Ástþór og vísar þar til þess að ekki hefur rignt af neinni alvöru á svæðinu frá því um miðjan júní. Það er þó þrátt fyrir skort á rigningu fínt vatn í ánni og mikið líf, líkt og fram hefur komið.

Þá segir hann einnig alltaf smá kropp í silungaveiði á neðstu svæðum árinnar. Þangað hafa helst erlendir ferðamenn lagt leið sína og segir Ástþór þá hafa skemmt sér vel við að veiða grimma og feita silunga. Stærstir hafa þeir verið sex pund. 

Veiðitímabilið í Straumfjarðará hófst 20. júní sl. og lýkur 12. september.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert