Ályktun Veiðifélags Breiðdæla varðandi fiskeldi

Frá fossinum Beljanda í Breiðdalsá.
Frá fossinum Beljanda í Breiðdalsá. streingir.is

Aðalfundur veiðifélags Breiðdala var haldinn þann 30. júní síðastliðinn. Þar var meðal annars fjallað um meint ólöglegt laxeldi fyrirtækisins Laxar fiskeldi ehf. á Reyðarfirði og að sýslumaður hafi neitað að sett yrði á lögbann á starfsemina þar sem að leyfið er útgefið af Matvælastofnun.

Af þessu tilefni ákvað veiðifélagið að senda frá sér eftirfarandi ályktun.

Risalaxeldi með framandi og kynbættum laxi af erlendum uppruna  með 90 þúsund tonna ársframleiðslu samkvæmt umsóknum í opnum sjókvíum á Austfjörðum er ógn við lífríkið og fyrirséð að muni valda óafturkræfum skaða. Það staðfestir reynslan í nágrannalöndunum. Norðmenn hafa nú bannað nýtt eldi í opnum sjókvíum. Hrikaleg mengun og slysasleppingar fiska, sem eyðileggja náttúrulega laxastofna, eru staðreyndir sem blasa við. Ef áætlanir ganga eftir, þá er ljóst að laxveiði í íslenskum ám muni heyra sögunni til innan fárra ára. Hér er í húfi líf og dauði íslenska laxins og ósnortinnar náttúru. Orðspor þjóðar er líka í húfi núna þegar umhverfisvernd er í fyrirrúmi og þjóðir hvattar til að varðveita  náttúruna til lands og sjávar fyrir komandi kynslóðir.

Aðalfundur Veiðifélags Breiðdæla harmar linkind opinberra umhverfis-og eftirlitsstofnana í umgengni við laxeldisiðjuna. Miklir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi þar sem reynir á vald fjárgróðans. Laxeldisiðjan virðist fá ómælt fjármagn frá útlöndum til athafna sinna og vekur upp spurningar hvort hafi áhrif á opinberar stofnanir til að fara framhjá lögum og reglum í stjórnsýslunni. Niðurstaða Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 20. júní sl. er lýsandi dæmi um dekrið við eldið, þar sem útgefið starfsleyfi fyrir fiskeldi í opnum kvíum í innanverðu Ísafjarðadjúpi var fellt úr gildi. Þar fékk Umhverfisstofnun falleinkunn og fór ekki að lögum í stjórnsýslu sinni.

Fyrir fáeinum dögum hófst útsetning kynbættra og framandi laxaseiða í opnar kvíar á Reyðarfirði á vegum Laxar fiskeldis ehf., sem er að meirihluta í norskri eigu.  Það er gert á grundvelli rekstrarleyfis sem gefið var út árið 2012 af Fiskistofu, en Matvælastofnun hefur nú yfirtekið þá stjórnsýslu. Leyfið gilti í þrjú ár skv. lögum með heimild til að framlengingar í eitt ár til viðbótar, en þá var Matvælastofnun skylt að fella það úr gildi ef ekki væri hafin eldisstarfsemi. Matvælastofnun framlengdi hins vegar  gildistíma leyfisins um 14 mánuði umfram hámarksgildistíma í fyrra án þess að baki stæði nokkur heimild í lögum. Laxeldisfyrirtækið stóð heldur ekki við þann frest sem rann út 29. maí sl., en þá hafði engin eldisstarfsemi hafist í kvíum á Reyðarfirði og rekstraleyfið af þeirri ástæðu útrunnið og ógilt. Auk þess hafa Laxar fiskeldi ehf. enga heimild til að setja út í kvíar seiði af erlendum og kynbættum uppruna, þar sem slíkur eldisstofn er hvergi heimilaður í útgefnum leyfum eins og lög kveða á um að skuli gert.

Veiðifélögin á Austurlandi kröfðust þess með bréfi 19. júní sl. til Matvælastofnunar að rekstrarleyfið yrði afturkallað. (Fylgir með). Engin svör hafa enn borist frá Matvælastofnun önnur en fréttir í fjölmiðlum að útsetning seiða hafi byrjað sl. sunnudag 25. júní. Veiðifélag Breiðdæla er aðili að málsóknarfélagi sem hefur stefnt þessum gjörningi fyrir dómstóla. Sömuleiðis leituðu veiðifélögin  á Austurlandi leiða til að sett yrði lögbann á útsetningu seiðanna, en það nær ekki fram að ganga á meðan laxeldisiðjan getur farið sínu fram í skjóli Matvælastofnunar sem neitar að fara að lögum og tekur hagsmuni hinna norsku eldisrisa fram yfir siðvædda stjórnsýslu.

Þessi dæmi sýna á hvers konar villugötum opinber stjórnsýsla er í umgengni við laxeldið og náttúru landsins og birtist ekki síður í „eftirliti“ með iðjunni sem er í algjöru skötulíki. Um það vitna sleppingar fiska úr kvíum þar sem það eru ekki eftirlitstofnanir sem tilkynna og alls ekki eldisiðjan, heldur aðilar óviðkomandi þeim. Dæmi um það er stór slepping fiska úr kvíum í Berufirði í fyrra, sem staðið hafði yfir mánuðum saman, og Veiðifélag Breiðdæla tilkynnti fyrst um í ályktun frá aðalfundi sínum.

Aðalfundur Veiðifélags Breiðdæla fagnar áliti Erfðanefndar landbúnaðarins um að frekari útgáfa laxeldisleyfa sé óforsvaranleg og skorar á stjórnvöld að grípa í taumana áður en í algjört óefni er komið.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert