Haft er eftir Gunnari Smára Egilssyni forstjóra Dagsbrúnar, á vefsíðu Berlingske Tidende, að Danmörk hafi orðið fyrir valinu til útgáfu fríblaðs vegna þess að útgáfufélögin þar standi ekki styrkum fótum, og hafi ekki efni á að tapa miklu fé í dagblaðastríði, það hafi Dagsbrún hins vegar. Talsmenn Nyhedsavisen, blaðs Dagsbrúnar hafa í dag borið til baka fréttir danskra fjölmiðla um að fyrirtækið sé að draga sig út úr útgáfu Nyhedsavisen.
Segir Gunnar í viðtali við Berlingske að útgefendurnir Berlingske Officin og JP/Politiken hafi ekki efni á að standa lengi í stríði á dagblaðamarkaðnum en að Dagsbrúnarmenn séu hins vegar vissir í sinni sök um að fyrirtækið hafi efni á að standa í langri baráttu um hylli auglýsenda og lesenda. Þá segir Gunnar að Dagsbrúnarmenn séu þeir einu sem ekki séu í vörn, heldur sókn, og að ekkert af því sem dönsku útgefendurnir hafi sagt eða gert hafi komið á óvart.
Þá segir hann að alltaf hafi staðið til að stofna sjóð hvers tilgangur væri aðeins sá að fjárfesta í 365 Media International og Nyhedsavisen. Segir Gunnar Smári að því hljóti að fylgja kostir því þar sé kominn fram eigandi með skarpari sýn, þar sem Dagsbrún sinni fleiru en dagblaðarekstri.