Greiningar- og lánshæfismatsfyrirtækið Moody's mun í dag greina frá því á hvaða hátt lánshæfi banka verði háttað eftir breytingar sem gerðar hafa verið á útreikningum Moody's. Samkvæmt frétt Bloomberg mun utanaðkomandi aðstoð, svo sem inngrip frá stjórnvöldum, hafa minni áhrif heldur en hún hafði samkvæmt núverandi mati. Talið er að þetta muni hafa áhrif til lækkunar á lánshæfismat íslensku viðskiptabankanna þriggja.
Samkvæmt lánshæfismati Moody's á íslensku viðskiptabönkunum þremur, Landsbanka, Glitnis og Kaupþings, frá því í febrúar hækkaði einkunn þeirra fyrir langtímaskuldbindingar í Aaa, sem er hæsta einkunn sem fyrirtækið gefur. Mat Moody's varðandi skammtímaskuldbindingar bankanna var ekki breytt en það er P-1, sem er hæsta einkunn sem gefin er.
Fyrirtæki eins og JPMorgan Chase og Merrill Lynch gagnrýndu á sínum tíma hina nýju aðferðarfræði Moody's við útreikning á lánshæfi bankanna og sögðu hana einskins virði. 85% þeirra sem tóku þátt í könnun Merrill um útreikninga Mooody's töldu að matsfyrirtækið hefði glatað trúverðugleika sínum eftir breytinguna.
Christopher Mahoney, hjá Moody's í New York sagði í samtali við Bloomberg að greint verði frá breytingunum í kvöld.