Úrvalsvísitalan lækkaði strax við opnun markaða um 3,75% í Kauphöll OMX á Íslandi og stendur vísitalan í 7.579,75 stigum. FL Group hefur lækkað um 6,67%, Exista um 6,44%, Straumur um 5,67% og Landsbankinn um 4,96%. Svipaða sögu er að segja af öðrum hlutabréfamörkuðum á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu.
Í Ósló hefur vísitalan lækkað um 3,31%, í Kaupmannahöfn um 3,69%, Helsinki 3,84% og í Stokkhólmi um 2,97%. OMX Nordic 40 hefur lækkað um 3,66% það sem af er degi. Í Lundúnum hefur FTSE vísitalan lækkað um 2,65% og er hún komin niður fyrir sex þúsund stig en það hefur ekki gerst síðan í mars. Þýska DAX vísitalan hefur lækkað um 2,54% og franska CAC vísitalan hefur lækkað um 2,86%.
Í Asíu var einnig um að ræða miklar lækkanir á hlutabréfamörkuðum og eins í Bandaríkjunum í gærkvöldi þar sem Dow Jones fór niður fyrir 13 þúsund stig og hefur hún ekki verið lægri síðan í apríl.