Írska bankakerfið er í kröggum og gæti þurft á þjóðnýtingu á halda, þar sem lækkandi fasteignaverð veldur auknum vanskilum, segir þarlendur hagfræðingur.
Morgan Kelly, prófessor við University College í Dublin, segir í samtali við Telegraph í gær að stjórnvöld ráði nær ekkert við niðursveifluna á fasteignamarkaði, sem sé að verða alvarlegt vandamál.
„Þetta eru dæmigerð eftirköst eftir uppsveiflu, en samt getum við ekkert gert því við erum innan evrusvæðisins,“ segir Kelly og telur að ekki sé hægt að lækka stýrivexti eða fella gengið, í raun séu mun minni möguleikar á innspýtingu í hagkerfið en fólk haldi.
Segir hann efnahagslægð vera á Írlandi líkt og á alþjóðamörkuðum. Staða írsku bankanna muni segja til um hversu ástandið verði slæmt, og satt að segja sé útlitið heldur dökkt.
Í frétt Telegraph kemur fram að húsnæðisverð á Írlandi hafi lækkað um 7% á síðasta ári, og nú þegar á þessu ári sé lækkunin komin í sömu hæðir. Þá fór atvinnuleysi í febrúar sl. í 5,2%, hið mesta í átta ár.
Vitnar Kelly til þess að hið sama geti gerst á Írlandi og gerðist á Norðurlöndunum kringum 1990 þegar stórir sænskir bankar voru þjóðnýttir. Bent er á að Írland hafi getið sér gott orð á undanförnum árum fyrir hagstætt rekstrarumhverfi, með aukinni fríverslun, en nú sé landið orðið mjög viðkvæmt fyrir óhagstæðu gengi evrunnar. Segir Kelly að frá því að evran var tekin upp hafi dregið mjög úr samkeppnishæfni Írlands.