Baugur Group sætir gagnrýni í breska blaðinu Sunday Times í dag fyrir framgöngu verslunarkeðjunnar MK One, sem Baugur keypti árið 2004 en seldi fyrir nokkrum vikum. Segir blaðið fyrirtæki skulda fataframleiðendum háar fjárhæðir.
Blaðið ræðir við forsvarsmann fataverksmiðju í Leicestershire, sem segir að MK One hafi fengið að safna skuldum vegna þess að vitað var að fyrirtækið hefði öflugan bakhjarl. Sá bakhjarl hafi hins vegar reynst haldlaus þegar á reyndi.
Sunday Times segir fataframleiðandann, sem nefndur er Robert, hafa átt viðskipti við MK One í tvo áratugi. Síðustu mánuði hafi skuldir MK One við Robert byrjað að safnast upp og numið þúsundum punda. Robert hafi ítrekað hringt fyrirtækið til að innheimta skuldina en án árangurs og á endanum gerði Robert sér ferð í höfuðstöðva MK One í vesturhluta Lundúna.
„En móttökuritarinn hristi höfuðið þegar hann óskaði eftir að hitta fjármálastjórann og leit til hliðar á stæðilegan nýjan öryggisvörð, sem varnaði honum leið.
Fjórum stundum síðar, eftir að Robert neitaði að yfirgefa skrifstofuna, fékk hann ávísun. Á föstudag hringdi bankinn hans í hann og sagði hinum að ávísunin, sem hann ætlaði að nota til greiða starfsfólkinu laun, hefði ekki fengist innleyst."
Robert segir við Sunday Times, að hann hafi verið í þessari atvinnugrein lengi og séð fyrirtæki koma og fara og hann hafi einnig brennt sig nokkrum sinnum. „En ég taldi að í þetta skipti myndi fara öðruvísi, því þótt það væri augljóst, að fyrirtækið hefði frá sl. hausti verið að kaupa vörur sem það gat ekki greitt fyrir þá héldum við að skuldirnar yrði greiddar vegna þess að öflug vél eins og Baugur væri bakhjarlinn.
Þegar litið er til baka sé ég það það var heimskulegt að halda áfram að afgreiða vörur svona lengi."
Blaðið segir, að ekki sé hægt að nefna Robert réttu nafni vegna þess að hætta á að hann missi mikilvægar tryggingar ef ljóst er hve útistandandi skuldir hans eru miklar. Það sé þó afar óvenjulegt, að framleiðendur komi fram með þessum hætti.
Blaðið segist hafa hitt Robert og forsvarsmenn þriggja annarra framleiðslufyrirtækja, sem upplýstu að samanlagt væru útistandandi skuldir við þá 622 þúsund pund, jafnvirði nærri 90 milljóna króna. Þeir séu að skuldbreyta lánum sem hvíla á húsum þeirra og fyrirtækjum og selja það sem þeir geta en ljóst sé, að segja verði upp fólki í verksmiðjum.
Allir séu þeir sammála um, að hefði Baugur ekki staðið á bak við MK One hefði síðarnefnda fyrirtækinu aldrei verið leyft að safna svona háum skuldum. Þá gagnrýna þeir Baug fyrir að hafa reynt að breyta MK One úr lágvöruverslunarkeðju í dýra tískuvöruverslunarkeðju.
Haft er eftir talsmanni Baugs, að fyrirtækið hafi selt MK One til Hilco, sem sé reyndur fjárfestir og hafi tekið yfir skuldbindingar fyrirtækisins. Því sé ekki viðeigandi að Baugur tjái sig frekar um málið.