Einangrað evrópskt land sem byggir afkomu sína á fjármálaþjónustu og vetraríþróttum er ekki lengur sama virkið í peningamálum og var, núna þegar lánsfé gufar upp um allan heim. Það hriktir í stoðum banka, óhagganlegur gjaldmiðillinn sem áður var, veikist stöðugt og þjóðin með allt sitt stolt og sjálfstæðiskennd, spyr hvort aldagömul stefnan um að vera engum öðrum háður muni lifa af.
„Jafnvel Sviss veltir því fyrir sér hvort hún sé ónæm fyrir þeim öflum sem skekja Ísland.“
Þannig hefst frétt um ástandið í Sviss um þessar mundir á fjármálavef Bloombergs og þær breytingar sem þar kunna að vera í aðsigi.
Þar segir einnig að hamfarirnar í fjármálalífinu hér á Íslandi geti verið víti til varnaðar fyrir Svisslendinga, sem haldi ekki af minni ákefð í sjálfstæði sitt. Þótt þeir standi mun betur að vígi en Íslendingar, sé stöðu þeirra sem varðmanna veraldarauðsins ógnað af umrótinu í efnahagslífi heimsins sem þeir hafi ekki stjórn á, og feilsporum sem bankar þeirra hafa stigið undanfarið.
Svissneska líkanið að einangrunarhyggju er ekki til hagsbóta eins og málum er nú komið, hefur Bloomberg eftir Michael Baer, sonarsonarsyni Julius Baers, sem var í stofnandi fyrsta auð- og fjárstýringafyrirtækisins sem landið hefur löngum verið þekkt fyrir. „Sviss er vissulega ekki ónæmt fyrir þróuninni í heiminum, sérstaklega ekki þegar hún snýr að fjármálakreppunni og efnahagslífinu.“
Baer - sem núna er í forsvari fyrir þessa sögufrægu fjölskyldu í einni elstu fjármálamiðstöð heims - hefur sjálfur fært starfsemi sína til einnar hinnar yngstu því að árið 2006 setti hann upp fjármálaþjónustufyrirtækið Baer Capital Partners í Dúbæ til að sinna auði Miðausturlanda.
Bloomberg segir að meðal hinna 7,6 milljóna Svisslendinga megi nú sjá merki um að farið sé af fara um þá út af hamförunum á helstu mörkuðum heims og vaxandi efasemda gæti um að dásamleg einangrunarhyggjan sem þeir hafi búið við allt frá því á miðöldum, geti dugað þeim öllu lengur.
Samdráttur í efnahagslífinu
Svissneska hlutabréfavísitalan hefur fallið 31%, USB-bankinn, flaggskip þarlendrar bankastarfsemi, hefur tapað mest allra banka í Evrópu, og svissneski frankinn hefur hrunið gagnvart dollar. Bankaleyndin sem hingað til hefur laðað til sín erlent fjármagn þykir nú kveikja fleiri elda og vera umdeildari en nokkru sinni.
Hagvöxtur í Sviss er sagður muni skreppa saman um 0,2% á næsta ári eftir 1,9% hagvöxt í ár. Iðnaðarframleiðslan hefur dregist meira saman en nokkru sinni frá 1995 samkvæmt tölum fyrir nóvember, og þótt atvinnuleysi mælist aðeins 2,6% sem er lágt á heimsvísu þá jókst atvinnuleysi í september í fyrsta sinn í fimm ár og þykir ekki séð fyrir endan á þeirri þróun.