Fjölmargir erlendir fjölmiðlar fjalla um greiðslustöðvunarbeiðni Baugs Group í dag. Á vef Financial Times er haft eftir sérfræðingum á sviði verslunar að líklegast sé að verslanir sem Baugur eigi hlut í verði reknar áfram en hlutur Baugs í þeim verði færður til banka sem hafa lánað Baugi. Starfsmenn fyrirtækja sem Baugur á hlut í eru um 50 þúsund talsins.
Segir í frétt FT að beiðni Baugs hafi áhrif á framtíðarskipun eignarhalds á verslunarkeðjum eins og House of Fraser, Hamleys, Jane Norman og All Saints. Yfirmenn þeirra verslana sem Baugur á hlut í fengu upplýsingar um fyrirhugaða greiðslustöðvunarbeiðni í gærkvöldi.
Baugur Group á stóran hlut í Mosaic Fashions sem meðal annars rekur verslanir eins og Karen Millen, Principles, Oasis, Warehouse, Coast og Shoe Studio vörumerkið.
Baugur á jafnframt hlut í nokkrum skráðum félögum þar á meðal bandarísku stórverslanasamstæðunni Saks, bresku stórverslanakeðjunni Debenhams sem og tískuhúsinu French Connection.
Í frétt Times er fjallað um erfiðleika Baugs frá falli íslensku bankanna og því að breski kaupsýslumaðurinn Philip Green hafi komið til Íslands í október til þess að kaupa eignir Baugs. Þar kemur fram að nokkur kauptilboð hafi borist í verslanir Mosaic Fashions en mestur áhugi sé á kaupum á kvenfatakeðjunni Principles.
Times birtir eftirfarandi lista yfir fyrirtæki Baugs í Bretlandi:
Coast
Karen Millen
Oasis
Principles
Warehouse
Whistles
Jane Norman
All Saints
Day Birger et Mikkelsen
Matthew Williamson
House of Fraser
Hamleys
Iceland
Goldsmiths
Mappin & Webb
Wyevale Garden Centres
Watches of Switzerland