Mjög vaxandi andstöðu gætti við innlánasöfnun íslensku bankanna í öðrum Evrópuríkjum á síðasta ári áður en bankarnir féllu. Voru uppi raddir um að komið yrði í veg fyrir að íslensku bankarnir fengju að taka á móti innlánum eða að þeir fengju að safna frekari innlánum þar sem innlánasöfnun var þegar hafin.
Þetta kemur m.a. fram í erindi Ingimundar Friðrikssonar, seðlabankastjóra, um aðdraganda falls íslensku bankanna, sem birtist á vef Seðlabankans í dag.
Ingimundur segir, að íslensku bankarnir hafi aukið mjög sókn sína á innlánamarkaði í öðrum löndum frá því síðla árs 2006. Þeir töldu þessa innlánasöfnunina ganga svo vel, að í máli sumra forsvarsmanna þeirra kom fram á fundum á síðasta ári að auðvelt ætti að verða fyrir þá að ráða við alla endurfjármögnun útistandandi skuldabréfa og annarra lána á komandi árum með söfnun innlána víðsvegar í Evrópu.
Bankastjórn Seðlabankans hafði hins vegar orðið þess áskynja í samtölum við bankastjóra og aðra yfirmenn seðlabanka annarra landa að mjög vaxandi andstöðu gætti við innlánasöfnun íslensku bankanna.
„Þessi andstaða átti eflaust ýmsar skýringar, m.a. þá að bankar á þeim væðum þar sem íslensku bankarnir hófu söfnun innlána kveinkuðu sér
undan skyndilegri samkeppni og komu óánægju sinni á framfæri við yfirvöld. Önnur skýring er sú að þar sem um innlánasöfnun í dótturfyrirtækjum var að ræða jukust mögulegar skuldbindingar innlánstryggingar kerfisins í viðkomandi landi. Í þriðja lagi kann sókn í innlán með tiltölulega háum vöxtum að hafa verið talin merki um veikleika bankanna. Í fjórða lagi var lýst áhyggjum af íslensku innlánstryggingarkerfi vegna innlána í útibúum erlendis. Þó var ljóst að kerfið uppfyllti skilyrði evrópskra tilskipana. Þær kváðu á um að stjórnvöld skyldu koma á slíku kerfi en ekki er vikið að ábyrgð stjórnvalda á skuldbindingum þess og alls ekki í kerfisáfalli. Um það vitna opinber gögn stofnana í Evrópusambandinu," segir Ingimundur.
Hann segir, að sumir hafi beinlínis sagt, að komið yrði í veg fyrir að íslensku bankarnir fengju að taka á móti innlánum eða a ð þeir fengju að safna frekari innlánum þar sem innlánasöfnun var þegar hafin. Dæmi hafi verið um kröfur um að bankarnir beinlínis minnkuðu innlán. Hafi þó einu gilt ákvæði í tilskipunum Evrópusambandsins um jafnan rétt fjármálafyrirtækja á EES-svæðinu til athafna innan svæðisins. „Meintir þjóðarhagsmunir höfðu yfirhöndina gegn Evrópusambandsskuldbindingum," segir Ingimundur.
Hann segir, að af þessum ástæðum virtist sem áform bankanna um að mæta allri fjármögnunarþörf sinni með söfnun innlána á komandi misserum yrðu í besta falli torsótt. Bankastjórn Seðlabankans greindi forsvarsmönnum íslensku bankanna frá viðhorfum stjórnvalda annarra landa til innlánasöfnunar þeirra, að þeir myndu sterkum og vaxandi andbyr.