Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs Group, telur að yfir 100 milljarðar króna tapist verði félag Baugs sett í greiðslustöðvun í Bretlandi í dag. Eignirnar rýrni einfaldlega í verði.
Hann telur ákvörðun skilanefnda bankanna vanhugsaða og ekki sé tekið mið af heildarhagsmunum. Viðskiptasamningar verði í uppnámi þar sem gamli Landsbankinn sé gjaldþrota banki í augum erlendra aðila. Þá íhugi stjórnendateymi fyrirtækjanna að hætta störfum. Það setji reksturinn og framtíðaruppbyggingu í óvissu.
Þegar Jón Ásgeir er minntur á að erlendir ráðgjafar skilanefndanna hafi verið fylgjandi þessari aðgerð, samkvæmt fréttatilkynningum, segir hann þær fréttir villandi.
PricewaterhouseCoopers hafi metið nokkrar leiðir við endurreisn Baugs út frá áhættu. Þessi leið feli í sér litla áhættu í núverandi stöðu en taki ekkert tillit til þeirra verðmæta sem tapist. „Mati á virði eigna er hent út í hafsauga,“ segir hann.
Lífeyrissjóðir og sparisjóðir eru meðal þeirra sem eiga skuldabréf Baugs. Bréf fyrirtækja sem eru í greiðslustöðvun eru verðlítil. Samkvæmt bráðabirgðatölum geta lífeyrissjóðir og sparisjóðir tapað samanlagt allt að 12 milljörðum króna.
Greiðslustöðvunarbeiðni Baugs Group Hf. og nokkurra dótturfélaga þess, meðal annars BG Holding ehf, verður tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Beiðni skilanefndar Landsbankans um greiðslustöðvun BG Holding í Bretlandi fer fyrir dómara þar í landi einnig í dag. Gangi það eftir fær skilanefndin að skipa aðstoðarmann sem færi með málefni félagsins.