Útlendingar áttu í febrúarlok ríkisbréf og -víxla fyrir tæplega 200 milljarða króna að nafnvirði. Þar af nam eign þeirra í ríkisbréfum 175 milljörðum króna sem jafngildir 62% af útistandandi ríkisbréfum að viðbættum lánsbréfum til aðalmiðlara, og ríkisvíxlaeign erlendra aðila nam 21 milljarði króna sem samsvarar rúmlega 27% af útistandandi víxlum í lok febrúar. Þetta kemur fram í nýbirtu mánaðaryfirliti Seðlabankans yfir lánamál ríkisins.
„Umsvifamestir voru útlendingar í þeim ríkisbréfum sem stystan líftíma hafa. Erlendir fjárfestar áttu þannig í febrúarlok 131 ma.kr. í stystu ríkisbréfaflokkunum tveimur, RIKB 09 0612 og RIKB 10 0317, sem samsvarar 79% af heildarstærð þessara flokka, en tæplega 14 ma.kr. í lengsta flokknum, RIKB 19 0226, sem jafngildir fjórðungi af heildarstærð hans. Bankar og sparisjóðir voru næststærstu eigendur ríkisbréfa, með tæp 14% af útistandandi bréfum. Athyglisvert er hins vegar að lífeyrissjóðir áttu í febrúarlok aðeins rúm 6% af útistandandi ríkisbréfum. Þar verður raunar að taka með í reikninginn að óbein eign þeirra í gegn um verðbréfa- og fjárfestingasjóði kann að vera nokkur, en slíkir sjóðir áttu 6,5% af útistandandi ríkisbréfum í febrúarlok," að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka.
Þar kemur fram að athygli vekur að þrátt fyrir mikla ríkisbréfaeign erlendra fjárfesta hafa þeir haldið sig til hlés í útboðum Seðlabankans á ríkisbréfum undanfarið. Þannig keyptu þeir ekkert í síðasta ríkisbréfaútboði þann 20. mars síðastliðinn, þegar boðnir voru út þrír lengstu flokkar ríkisbréfa.
Seðlabankinn heldur útboð á ríkisbréfum næstkomandi föstudag, 17. apríl. Stefnt er að því að bjóða út allt að 15 mö.kr. samtals að nafnverði í lengstu ríkisbréfaflokkunum þremur. Verður forvitnilegt að fylgjast með þátttöku í þessu útboði, samkvæmt Morgunkorni.