„Það er verið að pína þjóðina,“ sagði Margeir Pétursson stjórnarformaður MP Banka í Rödd atvinnulífsins, vefútvarpsþætti Samtaka atvinnulífsins. Margeir telur fullmikið af því góða að hafa hér bæði himinháa vexti og gjaldeyrishöft á sama tíma. Hagsmunir erlendra kröfuhafa virðist í forgrunni og það sé slæmt ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og peningastefnunefnd Seðlabankans taki að sér að verða innheimtumenn þeirra sem sé ekki þeirra hlutverk.
Í þættinum var m.a. rætt um kaup MP Banka á SPRON og um endurreisn íslensk fjármálalífs. Margeir varaði sterklega við því að raunveruleg hætta væri á að lífskjör á Íslandi færist áratugi aftur í tímann ef ekki verði gripið til réttra ráðstafana. Þjóðin verði að fá að stunda frjáls viðskipti.
Margeir benti í þættinum á að útlánasöfn bankanna hafi versnað mjög mikið frá síðastliðnu hausti og að útlán rýrni í hverjum einasta mánuði vegna ofurvaxta í landinu. Gríðarlega mikilvægt sé að afnema gjaldeyrishöftin og henda björgunarhring til heimila og smáfyrirtækja. Margeir benti jafnframt á að Seðlabankinn ráði gengi krónunnar og hann geti styrkt gengi hennar með handafli. Spurði hann hvers vegna Seðlabankinn hafi ekki nýtt sér það afl.