Seðlabanki Íslands hefur gripið til aðgerða á gjaldeyrismarkaði í gær og í dag og hefur gengi krónunnar hækkað um rúm 3% frá því á miðvikudag. Að sögn hagfræðideildar Landsbankans seldi Seðlabankinn hverjum nýju viðskiptabankanna þriggja 500 þúsund evrur, tvisvar í dag og einu sinni í gær.
Segir Landsbankinn, að hingað til hafi Seðlabankinn látið sér nægja að selja 250 þúsund evrur sem sé jafnframt lágmarksupphæð tilboða í viðskiptum á millibankamarkaði með gjaldeyri.
„Ekki er unnt að túlka innkomu Seðlabankans með fullri vissu. Hins vegar er ljóst að hún var kraftmeiri en undanfarið, sérstaklega í ljósi þess að bankinn hefur lítið beitt sér á gjaldeyrismarkaði síðustu vikur. Hugsanlega er um áhrif nýs seðlabankastjóra að ræða, eða þá að bankinn telur sig hafa meira svigrúm til inngripa í ljósi þess að Alþingi hefur leitt Icesave frumvarpið til lykta og því megi búast við að erlend lán fari að skila sér í hús. Í lok dags kostaði hver evra tæpar 180 krónur og er það e.t.v. það gildi sem Seðlabankinn vill verja. Þróun á komandi vikum mun segja til um hvort sú er raunin," segir í Hagsjá Landsbankans.