Fjármálaeftirlitið segist enn vera að skoða hvort Brynja Halldórsdóttir, fyrrverandi stjórnarmaður Kaupþings, sé hæf til setu í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.
Á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins er vísað í viðtal við Margréti Kristmannsdóttur, formann Samtaka verslunar og þjónustu, í Sjónvarpinu á þriðjudag þar sem hún sagði, að Fjármálaeftirlitið hefði ekkert að athuga við setu fyrrverandi stjórnarmanns í Kaupþingi í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna.
„Fjármálaeftirlitið vill gera athugasemd við þessi orð. Skipun stjórnarmannsins er til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu og hefur eftirlitið því ekki lokið athugun sinni á því hvort viðkomandi stjórnarmaður er hæfur til að sitja í stjórn lífeyrissjóðsins þar sem einungis eru rúmar tvær vikur síðan fullnægjandi gögn um stjórnarmanninn bárust eftirlitinu," segir á heimasíðu FME.