Bandarísk fjármálafyrirtæki eru í ríkari mæli farin að leita að fólki með óvenjulega hæfileika þegar þau ráða í ný störf. Sumir sérfræðingar segja, að þeir sem standi sig vel í pókerspili á netinu hafi til að bera eiginleika, sem geti reynst vel þegar veðja þarf á hlutabréf á fjármálamarkaði.
Vogunarsjóðir og önnur fjármálafyrirtæki eru í vaxandi mæli farin að leita hófanna hjá atvinnumönnum í póker, bæði til að finna nýja starfsmenn og til að sækja til hugmyndir um fjárfestingarstefnu.
Fréttaþjónusta Bloomberg hefur eftir Brandon Adams, sem kennir atferlisfjármál í hagfræðideild Harvardháskóla, að varla sé hægt að finna betri kandídata í störf á fjármálamarkaði en pókerspilara, sem hafa atvinnu af því að spila á pókernetsvæðum.
„Það eru í raun mennirnir, sem hafa lifað af í kerfinu og það kerfi er afar erfitt viðfangs þar sem 95% tapa peningum," segir Adams við Bloomberg. „Þeir sem eru nógu sniðugir og agaðir til að komast af í því kerfi munu væntanlega standa sig vel í fjármálaheiminum."
Undir þetta tekur Aaron Brown, 53 ára fyrrum pókerspilari sem nú er framkvæmdastjóri hjá eignastýringarfyrirtækinu AQR Capital Management í Connecticut. Hann segir að sá sem hafi getað unnið fyrir sér um nokkurra ára skeið sem pókerspilari verði væntanlega góður miðlari.
„Þeir vita þegar líkurnar eru með því að sækja fram og þeir kunna líka að forðast að missa allt," segir Brown.