Skattbyrðin lækkaði mest hér í fyrra

Skattbyrði, reiknað sem hlutfall skatttekna hins opinbera af vergri landsframleiðslu, lækkaði mest á Íslandi af ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD á milli áranna 2007 og 2008, eða úr tæplega 41% í 36%.

Þetta kemur fram í skýrslu OECD um skattamál sem birt var í gær og fjallað er um í Morgunkorni Íslandsbanka í dag. Þar segir að þessi þróun sé ekki einsdæmi á Íslandi því skatthlutfall lækkaði í 17 af 26 aðildarríkjum OECD sem skilað hafa inn gögnum fyrir árið 2008. Næstmesta lækkunin var á Spáni, úr 37,2% í 33%, og þar á eftir á Írlandi, úr 30,8% í 28,3%.

Þessi lækkun endurspeglar hrun ýmissa mikilvæga skattstofna, svo sem tekjuskatta, eignarskatta og skatta af vörum og þjónustu.  Að meðaltali var hlutfall skatttekna af vergri landsframleiðslu 35,8% í ríkjum OECD árið 2007 og áætlar stofnunin að hlutfallið fari niður í 35,2% árið 2008.

Skattbyrðin var mest í Danmörku í fyrra eða 48,3% af vergri landsframleiðslu og þar á eftir í Svíþjóð, 47,1%. Finnland (42,8%) og Noregur (42,1%) eru ekki langt undan og eru í 7. og 8. sæti yfir þau ríki með mestu skattbyrðina.  

Fram til ársins 1995 var skattbyrðin á Íslandi undir meðaltali OECD-ríkjanna. Á síðustu árum hefur hlutfallið á Íslandi hins vegar verið töluvert yfir meðaltalinu enda jókst skattbyrðin meira hér á landi en í nokkru öðru ríki á tímabilinu 1995 til 2007, eða úr 31,2% í 40,9%. Greining Íslandsbanka segir, að þetta hafi augljóslega haft þau áhrif, að staða Íslendinga í þessum samanburði breyttist verulega á þessum tíma.

Af 30 ríkjum OECD var Ísland í 21. sæti árið 1995 yfir mestu skattbyrðina en var komið upp í 9. sæti árið 2007. Miðað við tölur fyrir árið 2008 er þó ljóst að efnahagskreppan hefur dregið mun meira úr skatttekjum hins opinbera á Íslandi en í nokkru öðru ríki OECD.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka